Samanlagðar tekjur stærstu verkfræðistofa landsins jukust um 11% á milli ára.
amanlagðar tekjur tíu stærstu verkfræðistofa landsins námu tæplega 35 milljörðum króna árið 2024, samanborið við rúmlega 31 milljarð árið 2023 og rúmlega 28 milljarða árið 2022.
Þær jukust því um rúmlega 11% á milli ára og hafa hækkað um nær 23% á tveimur árum, sem undirstrikar stöðugan vöxt í greininni.
Efla er, líkt og undanfarin ár, stærsta verkfræðistofa landsins þegar horft er til tekna. Tekjur verkfræðistofunnar námu 12,3 milljörðum króna og jukust um 33% frá fyrra ári. Hagnaður stofunnar nam 1,1 milljarði króna í fyrra, samanborið við 1,2 milljarða árið áður.

Verkís kom næst á eftir en tekjur stofunnar námu 9,6 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 7%. Hagnaður Verkíss lækkaði hins vegar nokkuð milli ára, úr 657 milljónum í 404 milljónir króna.
COWI Ísland, áður Mannvit, fylgdi á eftir með 6,3 milljarða króna veltu, en tekjur lækkuðu lítillega frá árinu áður. Hagnaður stofunnar nam 199 milljónum króna og dróst verulega saman frá fyrra ári er hagnaðurinn nam 639 milljónum.

Segja má að þrjár stærstu verkfræðistofurnar, Efla, Verkís og COWI, séu áfram í ákveðnum sérflokki hvað tekjur varðar, þar sem velta þeirra allra hefur verið yfir 5 milljörðum króna undanfarin ár.
Næsta fyrirtæki sem kemur þar á eftir er VSÓ Ráðgjöf ehf., með 2,2 milljarða króna í tekjur og 265 milljónir í hagnað. Til samanburðar velti verkfræðistofan 2,1 milljarði árið 2023 og hagnaðist um 147 milljónir. Þessar fjórar stærstu verkfræðistofur landsins hafa allar verið reknar með hagnaði frá árinu 2019.
Nánar er fjallað um málið í 500 stærstu, riti Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið greininguna í heild hér og blaðið hér. Þá er hægt að kaupa ritið hér.
Heimild: Vb.is












