
Aðbúnaður á Litla-Hrauni er ekki nógu góður til þess að koma í veg fyrir smygl og dreifingu eiturlyfja innan veggja fangelsisins.
Þetta segir Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, í samtali við mbl.is.
Tekur ekki undir orð fangans
Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir fanga á Litla-Hrauni að allt sé „á floti“ í fíkniefnum í fangelsinu og að auðveldara sé að verða sér úti um fíkniefni innan þess en utan.
„Ég get nú ekki tekið undir það að þarna sé allt flæðandi í fíkniefnum en við vitum að það er neysla þarna,“ segir Birgir og bætir við að erfitt sé að koma algjörlega í veg fyrir það.
„Við höfum bara ekki nægilega góðan aðbúnað til að gera eins vel og unnt væri,“ segir hann.
Hönnunin auðveldi dreifingu
„Eins og hönnunin og aðbúnaðurinn er á Litla-hrauni þá er mjög auðvelt að dreifa fíkniefnum ef þau komast inn.“
Hann segir að í nútímafangelsum, þar sem einingar eru aðgreindari, sé mun erfiðara að koma fíkniefnum á milli manna.
Ýmsum aðferðum beitt
Aðspurður segir hann ýmsar leiðir hafa verið notaðar til að koma eiturlyfjum inn í fangelsið.
„Það eru náttúrulega gestakomurnar og svo eru fangar að fara í skammtímaleyfi og koma svo til baka og smygla þessu innvortis.“

Hann segir aðferðirnar í fangelsunum þær sömu og notaðar eru á landamærum til að koma fíkniefnum inn í landið.
„Ef það er grunur um eitthvað þarf viðkomandi að gangast undir líkamsrannsókn en eðli málsins samkvæmt getum við ekki látið hvern einasta einstakling gera það,“ segir hann jafnframt.
Heimild: Mbl.is











