Reykjavíkurborg þarf að greiða húseigendum hluta Hallveigarstígs 2 rúmlega tvær milljónir króna í skaðabætur vegna mistaka embættismanns. Borgarráð samþykkti beiðni borgarlögmanns þess efnis á fundi sínum í fyrradag. Fyrst var sagt frá málinu af RÚV.
Í ársbyrjun 2015 höfðu húseigendur sótt um leyfi til að starfrækja íbúðargistingu fyrir ferðamenn í íbúð á neðri hæð hússins. Afgreiðsla byggingafulltrúa á bóninni var jákvæð. Í kjölfarið hófust framkvæmdir til að verða við þeim kröfum sem gerðar eru til slíkrar þjónustu.
Á sumarmánuðum sama árs sóttu eigendurnir um leyfi til reksturs gististaðar. Frá skrifstofu borgarstjórnar barst þá neikvæð umsögn um umsóknina þar sem íbúðin væri staðsett utan þeirra marka sem Aðalskipulag Reykjavíkurborgar heimilar rekstur gististaða. Sú niðurstaða var þvert á niðurstöðu byggingarfulltrúa.
Það var síðan í ársbyrjun þessa árs sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafnaði því að veita leyfi fyrir gististaðnum þar sem neikvæð umsögn hafði borist frá skrifstofunni. Sökum þessa kröfðust húseigendur skaðabóta að upphæð tæplega 4,5 milljónum króna. Þær voru vegna kostnaðar við afgreiðslu leyfa, tapaðra leigutekna og helmings kostnaðar við ýmsar framkvæmdir.
Í bréfi borgarlögmanns kemur fram að húseigendurnir hafi orðið fyrir tjóni og ýmsu óhagræði vegna yfirsjónar embættis byggingarfulltrúa. Þá var einnig tekið fram að þrátt fyrir neikvæða umsögn skrifstofunnar hafi eigendur haldið áfram með framkvæmdir sínar og þar með ekkert gert til að takmarka tjón sitt. Með vísan til þess féllst borgarlögmaður á kröfu eigenda Hallveigarstígs 2 að hluta.
Heimild: Visir.is