Uppbyggingu nýrrar akbrautar á flugvellinum á Egilsstöðum er seinkað í nýjum drögum að samgönguáætlun til ársins 20240, frá því sem var í eldri drögum frá árinu 2023.
Fjármagn úr varaflugvallargjaldi hefur ekki verið fullnýtt heldur skorið niður í fjárfestingum á vellinum til framtíðar um fjóra milljarða króna. Lengingu Strandabakka á Seyðisfirði er frestað og hlutur ríkisins í framkvæmdinni lækkaður.
Þetta má lesa út úr drögum að samgönguáætlun fyrir árin 2026-2040 sem þrír ráðherrar kynntu á blaðamannafundi í gær.
Á Egilsstöðum hefur staðið til að gera akbraut og ný flughlöð til að bæta völlinn sem varaflugvöll fyrir Keflavíkurflugvöll. Til þess hefur verið unnið að skipulagi og hönnun. Þá var komið á varaflugvallargjaldi til að afla fé til endurbóta á flugvöllunum á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík.
Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, sagði á fundinum í vikunni að framundan væru stórframkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli og að jarðvegsframkvæmdir myndu hefjast strax á næsta ári.
Hvernig færast fjármagn og framkvæmdir til?
Samkvæmt eldri drögum að samgönguáætlun, sem aldrei voru afgreidd af Alþingi, átti þungi framkvæmdanna á flugvellinum að vera árið 2027. Samkvæmt drögunum nú er þeim frestað til ársins 2028. Rétt er að halda því til haga að ráðherrarnir sögðu í gær að eldri áætlun hefði aldrei verið fjármögnuð. Nýja áætlunin eigi að vera það svo lengi sem fjármálaáætlun gildir, eða til ársins 2030 sem er út fyrsta tímabilið.
Í eldri drögum var gert ráð fyrir 433 milljónum til framkvæmda árið 2026. Það er í nýju áætluninni lækkað um 11 milljónir. Árið 2027 var gert ráð fyrir 755 milljónum en það framlag er lækkað niður í 389 milljónir. Kostnaður á árinu 2028 fer í staðinn úr 214 milljónum í 930. Þetta þýðir þó heildaraukningu á þessu þriggja ára tímabili um 300 milljónir, úr 1,4 milljarði í 1,7.
Fjögurra milljarða lækkun til framtíðar
Að auki er gert ráð fyrir tæpum 1,5 milljarði í framkvæmdir árin 2029 og 2030 í nýju áætluninni. Erfitt er að bera þau ár saman, því í eldri áætluninni eru þau ár á öðru tímabili áætlunar þegar aðeins er samtala fyrir fjögurra ára tímabilið. Í nýju áætluninni er síðan reiknað með framkvæmdum upp á 938 milljónir á þriðja tímabili. Alls eru settir 4,14 milljarðar í akbraut og flughlöð á Egilsstöðum í áætluninni.
Það er helmingslækkun frá eldri drögum, þegar framkvæmdir voru fyrirhugaðar fyrir 8,2 milljarða. Á öðru tímabili þeirrar áætlunar átti að framkvæma fyrir 4,2 milljarða og 2,6 milljarða á þriðja tímabili.
Aðflugsljósum flýtt
En það er ekki allt á afturhaldi á flugvellinum í nýju áætluninni. Bætt er í uppsetningu aðflugsljósa. Þau voru áður á öðru tímabili og aðeins 350 milljónir í þau en strax á næsta ári koma 400 milljónir og 308 milljónir árið 2027. Búið er að vinna skipulag vegna þeirra.
Hvað varðar viðhaldsframkvæmdir er bætt við 100 milljónum í byggingar og búnað, sem verður um 20 milljónir á ári og er þar með jafnt og þétt. Upphæð til leiðsögubúnaðar verður á pari. Fjármagni til viðhalds flugbrauta er bæði frestað, frá árinu 2028 fram á þriðja tímabil og lækkað um 150 milljónir.

Reykjavíkurflugvöllur festur í sessi
Viðhald flugbrauta á Vopnafirði er áfram á þriðja tímabili og framlag til þess óbreytt. Framlag til bygginga er skorið töluvert niður en bætt í búnað, þó ekki fyrr en á þriðja tímabili. Áfram eru engar framkvæmdir á Norðfjarðarflugvelli fyrr en eftir árið 2030 og þær þá óverulegar.
Til stendur að ráðast í byggingu nýrrar flugstöðvar í Reykjavík. Undirbúningur átti að vera kominn í gang fyrir hana og reyndar framkvæmdir langt komnar. Það hefur ekki gengið eftir. Undirbúningur er nú áætlaður frá árinu 2029 með þunga framkvæmda á öðru og þriðja tímabili. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði unnin og fjármögnuð í samvinnu við einkaaðila.
Samkvæmt greinargerð meirihluta fjárlaganefndar Alþingis, sem birtist í þessari viku, nema tekjur af gjaldinu 250 milljónum umfram fjárfestingar á þessu ári og næsta. Ekki er sjáanlegt að framkvæmdir á völlunum þremur nái þeim 1,5 milljarði króna sem gjaldið skilar á ári á fyrsta tímabili samgönguáætlunar.
Bæði Eyjólfur og Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, sögðu á blaðamannafundinum í vikunni að styrkja ætti Reykjavíkurflugvöll í sessi. Hann yrði ekki lagður niður á meðan annar valkostur væri ekki fyrir hendi og slíkt væri ekki sjáanlegt næstu áratugina. Eyjólfur sagði að strax á næsta ári yrði farið að undirbúa nýju flugstöðina. Það sést þó ekki á fjárveitingum í áætluninni.

Bætt í sjóvarnir en bryggju á Seyðisfirði seinkað
Hvað varðar hafnir á svæðinu er lenging löndunarbryggju og dýpkun á Vopnafirði áfram á áætlun. Búið er að semja um þær framkvæmdir en þær hafa tafist vegna aðstæðna á Vopnafirði.
Lengingar Strandarbakka, ferjuhafnarinnar, á Seyðisfirði bíða sömu örlög og fleiri austfirskra verkefna. Framkvæmdir áttu að hefjast á næsta ári en engu fjármagni er veitt til þeirra í nýju áætluninni fyrr en árið 2027. Hlutur ríkisins í framkvæmdinni lækkar úr 60% í 40%.
Nýbúið er að bjóða út smíði nýrrar löndunarbryggju á Borgarfirði. Hún átti að vera komin til framkvæmda en var stækkuð og á að klárast á næstu tveimur árum. Bryggjuframkvæmdir á Djúpavogi koma nýjar inn árið 2030 með 30 milljóna framlagi.
Sjóvarnir á Seyðisfirði og í Njarðvík eru áfram á sínum stað í áætluninni, árin 2027 og 2028. Við bætast sjóvarnir í Gerðisfjöru á Borgarfirði árið 2028 og við Sláturhúsfjöru á Djúpavogi árið 2029.
Áætlun fyrir hafnir og sjóvarnir nær aðeins til ársins 2030.
Heimild: Austurfrett.is












