Home Fréttir Í fréttum Skel selur Baróns­fjósið á hálfan milljarð

Skel selur Baróns­fjósið á hálfan milljarð

23
0
Barónsfjósið hýsti verslun 10-11 um árabil en í dag er verslun Extra rekin í húsinu. Ljósmynd: Aðsend mynd

Skel fjárfestingarfélag keypti eignina af Reitum um mitt ár 2023.

Skel fjárfestingarfélag seldi í síðustu viku verslunarhúsnæðið að Barónsstíg 4 fyrir 500 milljónir króna, tæplega tveimur og hálfu ári eftir að félagið keypti eignina á 450 milljónir króna af Reitum fasteignafélagi.

Kaupandi er Bláhver ehf., systurfélag Gömlu laugarinnar ehf. sem rekur samnefnt baðlón í Hverahólmanum við Flúðir. Bláhver keypti einnig fasteign að Litlatúni 1 í Garðabæ af Skel fjárfestingarfélagi fyrir 460 milljónir króna fyrir rúmu ári.

Húsnæðið að Barónsstíg 4 hýsir í dag verslun Extra en þar áður var 10-11 með rekstur í húsinu um árabil. Báðar verslanir tilheyra Heimkaupum ehf., dótturfélagi Samkaupa sem er í eigu smásölufyrirtækisins Dranga, sem aftur er í 61% eigu Skeljar. Kaupandi yfirtekur leigusamning við Heimkaup um fasteignina.

Þegar Viðskiptablaðið fjallaði um kaup Skeljar á Barónsstíg 4 sagði Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar, að það hefði verið stutt eftir af leigusamningi verslunarinnar og fjárfestingarfélagið hefði talið hagfelldara að kaupa húsnæðið en að leigja það áfram.

Verslunarhúsnæðið að Baróns­stíg­ 4 – friðuð bygging sem er oft kölluð Baróns­fjósið – er í aust­ur­enda lóðar­inn­ar á horni Hverf­is­götu og Baróns­stígs. Fasteigninni fylgir heimild til að rífa viðbyggingu frá 1925 nyrst við húsið og byggja nýbyggingu Barónsstígs 2 í staðinn.

Barónsfjósið var fyrsta steinsteypuhúsið í borginni, en þegar það var reist var því ætlað að hýsa 50 kýr. Franskur barón, Charles Gouldrée Boillea, lét byggja fjósið árið 1899 og dregur Barónsstígur nafn sitt af honum. Fjósið hýsti lengi áhöld í eigu Rafmagnsveitu Reykjavíkur en þar hefur nú til margra ára verið rekin matvöruverslun.

Fasteignamat eignarinnar árið 2025 er 178,5 milljónir króna. Birt stærð eignarinnar er 549,1 fermetri.

Í kaupsamningi er kveðið á um að kaupverðið verði greitt annars vegar við kaupsamning, eða 375 milljónir króna, og hins vegar verði 125 milljónir króna greiddar við útgáfu afsals í síðasta lagi 30. desember.

Heimild: Vib.is