Framkvæmdir við byggingu nýs áhaldahúss Skagafjarðar á Borgarteig 15 á Sauðárkróki eru í fullum gangi þessa dagana.
Hjörvar Halldórsson, sviðstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, tók fyrstu skóflustunguna 8. september sl. og var byrjað að steypa grunninn þann 15. september. Allri steypuvinnu var lokið 15. október og var þá hafist handa við að reisa grind hússins. Þeirri vinnu lauk 20. nóvember.

Þessa dagana er unnið að því að klæða húsið, austur- og norðurveggir hafa nú þegar verið klæddir og suðurveggurinn er langt kominn. Vonir standa til að búið verði að loka húsinu fyrir áramót. Verklok samkvæmt samningi eru í júlí 2026, en miðað við framgang verksins til þessa má reikna með að verkinu verði lokið fyrr.

Aðalverktakinn er Friðrik Jónsson ehf. en undirverktakar eru Þ. Hansen ehf. með jarðvinnu, K.Þ. Lagnir með pípulagnir, Tengill ehf. með raflagnir og Hendill ehf. með múrverk. Samningur hljóðar upp á 272.000.000 kr. m. vsk.

Nýja húsnæðið á eftir að valda straumhvörfum í aðstöðu veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar. Loks verður hægt að sameina starfsemi Þjónustumiðstöðvar, Eignasjóðs og Skagafjarðarveitna, sem hefur í för með sér mikla samlegð þar sem allt starfsfólk verður staðsett á sama stað.
Heimild: Skagafjordur.is












