Kostnaður við nýtt hótel og baðlón í Þjórsárdal hleypur á átta milljörðum króna. Byggingin á að vera inni í fjallinu en eftir að framkvæmdir hófust kom í ljós að sums staðar var lengra inn að klöpp en áður var talið.
Dótturfélag Bláa lónsins hefur grafið stórt skarð í Rauðukamba í Þjórsárdal, þar sem nýtt hótel og baðlón munu rísa. Kostnaður við framkvæmdirnar hleypur á milljörðum króna.
Ein dýrasta framkvæmd íslenskrar ferðaþjónustu
Rauðukambar, dótturfyrirtæki Bláa lónsins, reisir hótel, baðlón og gestastofu í Þjórsárdal. Hótelið verður fellt inn í Rauðukamba. Magnús Orri Schram, yfirmaður þróunarmála hjá Bláa lóninu, segir markmiðið að fólk fái þá tilfinningu að það sé að ganga inn í fjallið.
Þetta er ein dýrasta framkvæmd sem ráðist hefur verið í íslenskri ferðaþjónustu, kostnaðurinn hleypur á milljörðum króna. Rauðukambar hafa lóðina á leigu til 40 ára.

Eftir að framkvæmdir hófust kom í ljós að sums staðar var lengra inn að klöpp en talið hafði verið og því var grafið meira út af fjallinu upphaflega var gert ráð fyrir, en efnið sem hefur verið mokað úr fjallinu verður notað til að hylja hótelbygginguna.
Magnús Orri segir allt kapp lagt á að lágmarka rask af framkæmdunum.
En hefði þá ekki verið einfaldara að hafa hótelið fyrir framan fjallið en ekki inni í því? „Markmiðið með því að byggja inn í fjallið er að láta náttúruna og hið manngerða tvinnast saman og skapa eitthvað einstakt,“ segir Magnús Orri.

Gert hefur verið bílaplan við mynni dalsins og þar verður einnig gestastofa. Lagður hefur verið næstum tíu kílómetra vegur þaðan að hótelinu. Magnús segir að vegurinn verði opinn öllum, en viðskiptavinir hótelsins og baðlónsins verði ferjaðir upp eftir.
„Við erum að stýra umferðinni, við erum að stýra álaginu,“ segir Magnús Orri. „Frekar en að fá 200 bíla hingað upp eftir er rúta á 20 mínútna fresti fram og til baka.“ Hann segir aðstöðuna ekki bara fyrir efnameiri viðskiptavini. „Nei, alls ekki. Við erum að byggja upp tjaldsvæði við gestastofuna. Við byggjum smáhýsi eða skála fyrir svefnpokagistingu. Við erum með fjallaböðin opin öllum.“
Framkvæmdirnar eru umdeildar enda á friðlýstu landslagsverndarsvæði. Þáverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, gaf leyfi fyrir framkvæmdunum, en þær þurftu ekki að fara í umhverfismat. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu er enn ekki búið að semja um greiðslur til ríkisins fyrir vatnsnýtingu.
Hvað er landslagsverndarsvæði?
Umhverfisstofnun taldi verkefnið líklegt til að hafa neikvæð og óafturkræf áhrif á náttúrufar og ásýnd svæðisins. Byggingin verði vel greinileg frá Stöng, sem er einn helsti viðkomustaður ferðamanna í dalnum, frá hluta Þjórsárdalsvegar og frá stórum svæðum á láglendi verndarsvæðisins. „Framkvæmdin mun valda óafturkræfu raski á Rauðukömbum, sem eru litrík líparítfjöll, sem teljast fágætar jarðminjar hér á landi,“ segir í leyfisbréfi stofnunarinnar.
Meðal skilmála fyrir leyfi var að óheimilt væri að raska eða aka um gervigígasvæði sunnan og austan við Rauðukamba, en fyrirtækið hefur fengið undanþágu frá friðlýsingarskilmálum til að bora eftir köldu vatni á gervigígasvæðinu.
Heimild: Ruv.is












