Mörg minni verktakafyrirtæki hafa þurft að draga saman seglin, fara í uppsagnir og loka ókláruðum nýbyggingum.
Óvissa á fasteignamarkaði hefur aukist gríðarlega undanfarið þegar bankar þrengdu enn lánaskilmála sína eftir að hæstiréttur felldi dóm í vaxtamálinu. Þetta veldur samdrætti í greininni, og er afleiðinganna þegar farið að gæta.
„Í nýbyggingamarkaðnum þá er augljós samdráttur í gangi og við erum að sjá fyrirtæki sem eru að draga verulega saman starfsemi sína, og sum jafnvel að loka. Ég sé mikið af minni verktökum sem hafa bara ekki fjármagn til þess að halda áfram, og eru bara hreinlega bara að loka sínum byggingum og segja upp mannskap, “ segir Jón Bjarni Jónsson, formaður Byggiðnar, félags byggingarmanna.
Hann segir sorglegt að menn skuli velja þennan kost, að hreinlega loka byggingum, vegna óvissu um sölu og fjármagn. Engin augljós lausn sé í sjónmáli, sem hægt væri að grípa til núna. Viðmið Seðlabanka um hvaða hlutfall af ráðstöfunartekjum megi nýta til íbúðakaupa sé einnig mjög óhagstætt.
Hann fagnar því að fundnar séu aðrar leiðir, líkt og að nokkrir stórir byggingarverktakar bjóði nú nýjar fjármögnunarleiðir þar sem sjóður í þeirra eigu leggur til allt að 20 prósent af kaupverði eignar. Þetta mættu lífeyrissjóðirnir skoða líka.
„Mér finnst þetta bara viðbrögð við því að menn eru að reyna að koma eignunum frá sér, menn eru að reyna að selja þær, og það er allavega betra að sitja uppi með 20% í stað 100%. Mér finnst þetta bara gott framlag hjá þessum aðilum sem er að bjóða þetta, og ég vona að þeim farnist vel í þessu,“ segir Jón Bjarni.
Reir Verk byggingarverktakar séu meðeigendur, ekki lánadrottnar
Byggingarfyrirtækið Reir Verk var fyrst til að bjóða upp á nýja fjármögnunarleið fyrir kaupendur á þeirra eignum í gegnum sjóðinn Reir 20 í samvinnu við Arion banka, þar sem fyrirtækið leggur þá allt að 20% af íbúðaverði og verður þar af leiðandi 20% meðeigandi eignarinnar.

Rannveig Eir Einarsdóttir, forstjóri Reir Verk segir þetta fyrirkomulag hafa verið þónokkurn tíma í þróun áður en boðið var upp á það í samvinnu við Stefni fjárfestingasjóð Aríon banka. Umfram allt hafi þau viljað bjóða upp á meiri fyrirsjáanleika fyrir kaupendur, og líka fyrir þau sjálf í byggingargeiranum. Kosturinn fyrir kaupandann sé umtalsmikill.
„Hann þarf að koma með minna eiginfé. Hann kemur með 10% meðan sjóðurinn kemur með 20%, og er þar með kominn inn á fasteignamarkaðinn með 80%. Hann er með 80% eignahlutfall í eigninni og getur þar með stigið út af leigumarkaði sem hefur sýnt sig að það er yfir 95% sem vill ekki vera inni á leigumarkaði, leiga er há og fer hækkandi,“ segi Rannveig.
Þannig verði sjóðurinn einnig sem meðeigandi að standa hann skil af 20% af fasteignagjöldum, og borga kostnað af þeim framkvæmdum sem húsfélagið samþykkir.
„Og svo er nú eitt, að það er mikið talað um gæði eigna og nýbygginga í dag, og þarna ertu með framkvæmdaaðilann með þér í eigninni, og það er ákveðin trygging gagnvart gæðum og viðhaldi því sjóðurinn ætlar að viðhalda sinni eign,“ segir Rannveig.
Fjármálaeftirlitið er nú með það til skoðunar hvort hluti slíkrar starfsemi kunni að falla undir lög um fasteignalán til neytenda. Rannveig vísar því þó á bug að um seljendalán sé að ræða.
„Við erum kaupendur að eign með þessum meðkaupendum, þannig að við erum meðeigandi,“ segir Rannveig. „Þannig að þetta er svo langt í frá að vera lán vegna þess að við borgum inn í sjóðinn 20% af eigninni, á sama hátt og kaupandinn borgar 10%. Og síðan er lán sem er upp á 70%.“
Heimild: Ruv.is












