Stofnandi Gröfu og Grjóts fékk Alfa Framtak sem ráðandi hluthafa á móti sér árið 2021, m.a. til að létta á eigin vinnuálagi.
Árni Jón Pálsson, fjárfestingastjóri hjá Alfa Framtaki, segir gott dæmi um hvernig framtakssjóðir geti stutt við verðmætasköpun vera kaup sjóðsins AF1 á ráðandi hlut í fyrirtækinu Gröfu og Grjóti ehf., sem sérhæfir sig á sviði jarðvinnu, árið 2021.
Í nýjasta hlaðvarpsþætti Íslenska draumsins segir hann frá því að Sigurður Sveinbjörn Gylfason, stofnandi Gröfu og Grjóts, hafi leitað til Alfa Framtaks á sínum tíma þar sem hann væri að vinna upp undir hundrað klukkustundir á viku og nálægt því að brenna út.
Það hafi hins vegar ekki verið einfalt að láta fyrirtækið í hendur hvaða aðila sem er. Öll samskipti við starfsmenn og alla kúnna hafi farið í gegnum Sigurð og því hafi hans starf skipt sköpum fyrir fyrirtækið.
„Hann kom til okkar og sagði, getið þið hjálpað mér einhvern veginn í þessu. Annars var hann mögulega að pæla í að selja öll tækin og loka starfseminni. Það hefði verið mjög sorglegt þegar þú ert með svona flott fyrirtæki og arðsemin var virkilega góð,” segir Árni Jón og bætir við að hefði sú leið orðið fyrir valinu hefði mikilvæg þekking glatast.
AF1, sjóður í stýringu Alfa Framtaks, keypti 60% hlut af Sigurði árið 2021 og átti félagið á móti honum. Árni Jón segir að í kjölfarið hafi verið unnið að því að láta starfsemina reiða sig minna á framlag Sigurðar.
„Eitt af því sem við gerðum var t.d. að hann skrifaði niður tvo daga, nánast mínútu fyrir mínútu, hvað hann var að gera. Síðan fórum við bara yfir listann, bara heyrðu, hvað ertu virkilega góður í og nauðsynlegur fyrir, hvað ertu góður í en einhver annar getur tekið við, og hvað ertu lélegur í og ættir í raun ekki að vera að gera.
Við kortlögðum heila vinnuviku hjá honum. Síðan fórum við bara í að ráða fólk og útdeila verkefnum.”
Árni Jón segir að árangurinn af þessu verkefni hafi ekki leynt sér. Á þremur árum hafi velta fyrirtækisins aukist úr ríflega 1,5 milljörðum króna – sem hafi í raun verið þakið á því hvað „hægt er að keyra í gegnum einn GSM-síma“ – upp í 3,5 milljarða króna. Afkoma félagsins hafi jafnframt þrefaldast yfir sama tímabil.
„Svona verkefni er rosalega gefandi og skemmtilegt, þegar maður nær svona árangri með fyrirtæki eins og þessu. Að leysa einhvern kraft úr læðingi eins og þarna gerðist.“
Grafa og Grjót ehf. var stofnað árið 2002 af Sigurði S. Gylfasyni. Í kjölfar þess að Alfa Framtak eignaðist meirihluta í félaginu keypti Grafa og Grjót fyrirtækið Steingarð árið 2022.
AF1 og teymi Gröfu og Grjóts stofnuðu árið 2023 Invit, samstæðu íslenskra innviðafyrirtækja, sem inniheldur fyrirtækin tvö.
Árni Jón ræðir um fjárfestinguna í Gröfu og Grjóti frá 35:18-38:10.
Heimild: Vb.is












