Margrét Dana Þórsdóttir er 18 ára nemi í vélstjórn í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Hún segist hafa alist upp inn í jarðýtu. Hún deilir myndböndum af sér í vinnunni sem hafa fengið milljónir áhorfa.
„Það er kannski ekki stereótýpan að einhver ung stelpa sé á ýtu,“ segir Margrét Dana Þórsdóttir. Margrét er 18 ára, lærir vélstjórn í Verkmenntaskólanum á Akureyri og hefur töluverða reynslu af því að stýra jarðýtum.
Áhugann á vélum segir Margrét hafa kviknað þegar hún var lítil en fjölskyldan hennar vinnur í vélum. „Ég byrjaði 12 á ýtu en það má ekkert mikið tala um það,“ segir hún. Hún hafi ekki hafa náð niður á pedalana þegar hún kveikti á ýtu í fyrsta sinn.
Margrét vinnur á ýtu við að mala klæðningarefni á Höfn hverja einustu helgi meðfram náminu. Hún segist njóta þess að vinna með höndunum. „Það er mikil tækni á bak við þetta. Þó maður sitji bara þá er maður samt að gera heilan helling.“
Ertu þokkalega góð á þessum tækjum?
„Ég myndi nú segja það.“
Milljónir aðdáenda
Margrét deilir myndböndum af vinnunni sinni á samfélagsmiðlum. Sum myndböndin hafa fengið milljónir áhorfa frá fólki um allan heim. „Einn daginn ákvað ég bara að taka upp videó og pósta því á TikTok. Síðan fékk það bara mörg views [áhorf] og ég hélt því bara áfram.“
Hún segir skipta miklu máli að kennarar taki vel á móti stelpum í vélstjórnarnámið, sérstaklega fyrir stelpur sem hafi ekki bakgrunn í vélum. Henni hafi verið tekið vel í náminu.
Spurð hvort hún sé ekki reynslumeiri en skólabræður hennar svarar Margrét: „Þeir hafa náttúrulega ekki hundsvit á því hvað ég er að gera á þessum vélum.“ Mögulega verði þeir einn daginn jafn færir og hún.
Kastljós ræddi við Margréti og fylgdi henni í skólann og vinnuna.
Heimild: Ruv.is












