Home Fréttir Í fréttum Fyrstir til að bjóða upp á 25% með­eign

Fyrstir til að bjóða upp á 25% með­eign

14
0
Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Kauplykill, nýr sjóður Skugga, býðst til að leggja fram allt að 25% eigið fé gegn 10% framlagi fyrstu kaupenda.

Skuggi byggingarfélag hefur sett á laggirnar húsnæðissjóðinn Kauplykil, í samstarfi við Stefni og Aparta, sem býðst til að leggja fram allt að 25% eigið fé við kaup einstaklinga á íbúðum úr verkefnum byggingafélagsins, gegn því að kaupandi leggi fram 10% eiginfjárframlag.

Um er að ræða þriðja sjóðinn af þessu tagi sem byggingarfyrirtæki hér á landi setur á fót í tengslum við eigin íbúðarverkefni. Öll verkefnin eru unnin í samstarfi við sjóðastýringafyrirtækið Stefni, dótturfélag Arion banka.

Fyrir hafði Reir verk opnað í september á sams konar úrræði í gegnum sjóðinn REIR20 og ÞG verk kynnti á dögunum sjóðinn ÞG Sjóður. Í báðum tilvikum er boðið upp á að sjóðirnir fjárfesti fyrir allt að 20% af kaupverði fasteigna og eignist því hlutdeild í viðkomandi fasteign, gegn því að einstaklingar leggi fram að lágmarki 10% af kaupverði.

Kauplykillinn er hins vegar fyrsti sjóðurinn til að bjóða upp á allt að 25% eiginfjárframlag, sem stendur til boða fyrir fyrstu kaupendur. Þeir fyrstu kaupendur sem nýta sér þetta úrræði, með 10% eigið fé, þyrftu því aðeins húsnæðislán sem nemur 65% af kaupverði fasteignar.

Fyrir hlut sinn innheimtir Kauplykill 5% leigu á ári. Leigan er ekki greidd mánaðarlega heldur kemur til greiðslu við sölu eignarinnar eða lok samnings. Samningstími er frá 3-10 árum. Þetta eru sömu kjör og standa til boða hjá REIR20 og ÞG Sjóði.

„Við erum virkilega stolt af því að geta boðið í fyrsta sinn á Íslandi uppá allt að 25% meðeign fyrir fyrstu kaupendur án kvaða eða tekjuskilyrða. Þessi lausn mun án efa hjálpa mörgum að komast í fyrsta sinn inná fasteignamarkaðinn,“ segir Jóhann Halldórsson, sölu og markaðsstjóri Kauplykils, í samtali við Viðskiptablaðið.

Þær íbúðir sem falla undir skilyrði Kauplykils eru úr verkefnum Skugga byggingafélags að Áshamri 2-6 og Baughamri 1.

Heimild: Vb.is