
Eftir nærri fimm ára tafir segir forstjóri Landsnets kominn tíma til að ljúka undirbúningi fyrir Blöndulínu 3, háspennulínu frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Þótt enn sé ósamið við þriðjung landeigenda á línuleiðinni sé eignarnám ekki uppi á borðum.
Erfiðar samningaviðræður við landeigendur, flókin skipulagsmál og samningar við sveitarfélög, ásamt alls kyns leyfismálum, hafa gert það að verkum að undirbúningur fyrir Blöndulínu 3 hefur dregist langt umfram fyrstu áætlun.
Hefði allt gengið eftir eins og kerfisáætlun gerði ráð fyrir væri þessi nýja Blöndulína búin að flytja rafmagn í tæplega eitt ár því framkvæmdum átti að vera lokið um síðustu áramót.
Flókið verkefni að finna ásættanlega lausn í samstarfi við Akureyrarbæ
Ragna Árnadóttir, forstjóri Landsnets, var nýkomin af fundi með Akureyrarbæ þegar Spegillinn ræddi við hana. Frá upphafi hefur bærinn krafist þess að Blöndulína 3 fari í jörðu þá tæpa tvo kílómetra sem hún fer um bæjarlandið, en Landsnet vill leggja loftlínu.
Línan er skipulögð í næsta nágrenni við tvö íbúðahverfi á Akureyri og yrði aðeins sex til sjö hundruð metra frá næstu íbúðarhúsum. Húseigendur hafa brugðist illa við og óttast verðfall á sínum eigum, og Akureyrarbær frábiður sér allar mögulegar skaðabætur.
Hún segir Landsnet eiga í góðu samtali við fulltrúa Akureyrarbæjar. Verkefnið sé að finna sem besta lausn í staðinn fyrir jarðstreng sem ekki sé hægt að leggja.
„Við erum búin að margreikna þetta og við getum einfaldlega ekki rekið kerfið ef það bætist við tveggja kílómetra jarðstrengur sem er af þessari stærðargráðu, eð 220 kílóvolt. Þá er það okkar verkefni að finna út úr því hvernig hægt er að leysa málið með bráðabirgðalausn.“
Skipulagsmálin á lokametrunum hjá öðrum sveitarfélögum
Blöndulína 3 fer í gegnum fjögur sveitarfélög; Húnabyggð, Skagafjörð, Hörgársveit og Akureyrarbæ. Og eins og heyra má er enn langt í niðurstöðu í viðræðunum við Akureyri, en málin eru lengra komin hjá hinum sveitarfélögunum þremur.
„Skipulagsmálin þar eru á lokametrunum, getur maður sagt. Í Húnabyggð verður skipulagið auglýst fljótlega, í Skagafirði býður skipulagstillagan staðfestingar Skipulagsstofnunar og í Hörgársveit er skipulagstillagan í auglýsingu. Þannig að þau eru öll komin frekar langt, og Akureyri þar af leiðandi styst.“
Samningum lokið við tæplega 60% landeigenda á línuleiðinni
Það er löng leið frá Blöndustöð til Akureyrar og á háspennulínan að liggja yfir 90 jarðir. Ragna segir samningum lokið við tæplega 60% landeigenda. Viðræður við suma þeirra hafa gengið illa og einstaka landeigendur hafa sagt að línan fari aldrei í gegnum þeirra land.
„En auðvitað er það þannig að á endanum ef ekki semst, þá erum við komin á annan stað. En við erum ekki komin þangað enn þá.“ Því sé ekki uppi á borðinu að fara í eignarnám, reynt verði til þrautar að ná samningum og leysa málin með þeim hætti.

Landsnet
Það er orðin fjögurra til fimm ára og seinkun við undirbúning Blöndulínu 3, miðað við hvað gert var ráð fyrir í upphafi. Ragna segir þessar tafir afar óæskilegar því það sé bráðnauðsynlegt að styrkja flutningskerfið.
„Þetta er sameiginlegt verkefni Landsnets, stjórnvalda, sveitarstjórna og íbúa þessa lands. Við þurfum einfaldlega að gera betur, þetta er ekki æskilegt.“
„Sporin hræða með Suðurnesjalínu 2 og við viljum ekki fá svoleiðis dæmi aftur upp á borðið. Þannig að það þarf að hugsa í lausnum, Íslendingar eru dálítið hrifnir af skyndilausnum en því miður eru þær ekki á hverju strái en það þarf að gera eitthvað til þess að þetta leysist. Það er að segja að svona framkvæmdir sem eru þjóðhagslega mikilvægar, nauðsynlegar, að þær geti gengið hraðar fyrir sig.“
Væri óskandi að hægt yrði að taka nýja Blöndulínu í notkun 2029
Og hún segir að helsta hindrunin við að ljúka undirbúningi fyrir Blöndulínu 3 séu leyfismál. „Við þurfum að ná lendingu í þessum skipulagsmálum og við þurfum að ná lendingu með landeigendum. Svo náttúrulega koma framkvæmdirnar sjálfar og það þarf auðvitað að bjóða út og fá aðföng. Aðföng eru ekki á hverju strái í heiminum í dag en við munum leysa það þegar þar að kemur.“
„Þannig að við erum kannski að tala um mörg ár í viðbót?“
„Ja, segjum að hún verði tekin í rekstur 2029. Það væri óskandi að það mundi ekki dragast lengur en það.“
Heimild: Ruv.is











