Að lokinni ráðstöfun munu seljendur Hreinsitækni eiga um 17,5% í Styrkási. Virði hlutafjár sameinaðs félags er áætlað um 30 milljarðar króna.
Styrkás hf., félag í 45,7% eigu SKEL fjárfestingafélags hf., hefur undirritað samning um kaup á öllu hlutafé í Hreinsitækni ehf., HRT þjónustu ehf. og tengdum félögum.
Gert er ráð fyrir að gengið verði endanlega frá viðskiptunum að uppfylltum hefðbundnum fyrirvörum, þar á meðal samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Samkvæmt tilkynningu er heildarvirði samstæðu Hreinsitækni metið um 9,7 milljarða króna í viðskiptunum og kaupverð alls hlutafjár um 7 milljarða króna.
Af því verða 25% greidd í reiðufé en 75% með útgáfu nýrra hluta í Styrkási á genginu 24,5 krónur á hlut.
Hreinsitækni er lýst sem leiðandi aðila í umhverfis- og innviðaþjónustu fyrir sveitarfélög og atvinnulíf.
Fyrirtækið rekur aðstöðu og tækjaflota í fjórum landshlutum og telur um 150 starfsmenn. Velta samstæðunnar árið 2024 nam 5 milljörðum króna og EBIT var um 800 milljónir króna.
Með kaupunum verður til fjórða tekjusvið Styrkáss á sviði umhverfis- og iðnaðarþjónustu.
Þar með skapast, að sögn félagsins, svigrúm til að efla þjónustu við stóriðju og sveitarfélög og byggja upp nýjar tekjustoðir í innviðaþjónustu.
Fyrstu níu mánuði ársins 2025 nam velta Styrkás 47 milljörðum króna, rekstrarhagnaður eftir afskriftir (EBIT) var 1,9 milljarðar króna og hagnaður eftir skatta 1,3 milljarðar króna.
Vaxtaberandi skuldir samstæðunnar, að frádregnu handbæru fé, námu í lok september 1 milljarði króna. Eftir viðskiptin er áætlað að velta sameinaðs félags á ársgrundvelli verði tæplega 70 milljarðar króna og hagnaður eftir skatta rúmlega 2 milljarðar króna.
Gert er ráð fyrir að við uppgjör verði eignarhlutur SKEL í Styrkási 37,7%.
Miðað við gengi Styrkás í viðskiptunum verður virði eignarhlutarins um 11,2 milljarðar króna.
Samkvæmt hluthafasamningi stærstu hluthafa er stefnt að skráningu hlutabréfa Styrkás á aðalmarkað Nasdaq Reykjavík árið 2027.
Heimild: Vb.is












