Home Fréttir Í fréttum Segir Sundabraut dýrustu vegaframkvæmd Íslandssögunnar

Segir Sundabraut dýrustu vegaframkvæmd Íslandssögunnar

27
0
Fundurinn var haldinn í Egilshöll í fyrradag. mbl.is/Eyþór

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir Sundabraut vera algjört forgangsmál en að vanda þurfi til verka þar sem um sé að ræða dýrustu vegaframkvæmd Íslandssögunnar.

Hann ræddi málið við mbl.is eftir íbúafund í Egilshöll í fyrradag, þar sem kynnt var umhverfismatsskýrsla og drög að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna verkefnisins.

„Ég er búinn að mæta á alla fundina og það er mjög fróðlegt að heyra viðbrögð fólks,“ segir Guðlaugur.

„Það er augljóst að það þarf að líta til margra þátta. Sundabraut er þörf tenging og því fyrr sem hún kemur, því betra. En þetta er jafnframt gríðarlega umfangsmikil og dýr framkvæmd og því mikilvægt að hún sinni sínu hlutverki og taki tillit til íbúa borgarinnar.“

Að sögn Guðlaugs virðist almenn samstaða ríkja meðal íbúa um að Sundabraut sé forgangsmál.

„Ég held að fólk hafi skilning á því að þetta er algjört forgangsmál. Það eru ákveðnir hlutir sem í upphafi skyldi endurskoða og það er miklu betra að gera það þegar menn eru að undirbúa verkefnið heldur en að reyna að taka á vandamálum þegar þau eru komin.“

Hugnast göng best

Guðlaugur segir að af þeim þremur kostum sem kynntir hafa verið hugnist honum best að ráðast í göng.

„Mér finnst skásti kosturinn vera göng, þó að ég hafi áhyggjur af þeim forsendum að menn geri ráð fyrir algjörri byltingu í almenningssamgöngum. Það þarf að skoða hvað gerist ef þær áætlanir ganga ekki eftir,“ segir hann.

Hann bendir jafnframt á að Geldinganesið sé verðmætt svæði sem muni ekki njóta sömu gilda verði það þverað. Þá hafi íbúar áhyggjur af því að framtíðaríbúar verði ekki nægilega vel tengdir Grafarvogi.

Segist ekki vera að tefja verkefnið

Að lokum segir Guðlaugur að hann hafi vakið athygli á þessum atriðum af ástæðu en það hafi stundum verið túlkað sem mótstaða við framkvæmdina.

„Ég hef alltaf hugsað um hagsmuni íbúa kjördæmisins. Það er ósanngjarnt að halda því fram að maður sé að tefja verkefnið með því að benda á atriði sem skipta máli.

Ég hef alltaf viljað sjá þessa tengingu, barist fyrir henni og fagna því að nú sé verið að vinna að henni. En við verðum að hlusta á fólkið og skoða áhrif á mannlíf, náttúru og umferð,“ segir hann að lokum.

Heimild: Mbl.is