Home Fréttir Í fréttum Tæplega fimm þúsund íbúðir gætu verið vannýttar í Reykjavík

Tæplega fimm þúsund íbúðir gætu verið vannýttar í Reykjavík

23
0
Í skýrslunni kemur fram að á bilinu 10.500 íbúðir til 16.400 voru ekki nýttar til varanlegrar búsetu hér á landi í október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæplega fimm þúsund íbúðir gætu verið vannýttar í Reykjavík, en á Akureyri og í Kópavogi gætu þær verið rúmlega þúsund.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar fyrir október sem birt var í dag.

Í skýrslunni kemur fram að á bilinu 10.500 íbúðir til 16.400 voru ekki nýttar til varanlegrar búsetu hér á landi í október.

Leigumarkaðurinn er stærri en fyrri búsetukannanir stofnunarinnar hafa gefið til kynna. Niðurstöður nýrrar könnunar á vegum HMS og stéttarfélaganna Eflingar, VR og Einingar-Iðju benda til þess að um 28% fullorðinna einstaklinga séu á leigumarkaði hér á landi, en ekki 15% eins og áður var talið.

Fram kemur í skýrslunni að leigusamningum í nýjum íbúðum hefur ekki fjölgað á síðustu mánuðum, þrátt fyrir umfjöllun um að byggingaraðilar hafi tekið nýjar íbúðir af sölu og sett á leigumarkað. Það sem af er ári hafa um 8,5% nýskráðra leigusamninga verið um íbúðir í nýbyggingum.

Fasteignamarkaðurinn er kaupendum í vil þessa stundina, að mati fasteignasala. Kaupsamningum hefur ekki fækkað að ráði á höfuðborgarsvæðinu, en nýjum íbúðum á sölu hefur fjölgað hratt á sama tíma og sala þeirra hefur verið dræm. Birgðatími íbúða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur ekki mælst lengri frá því að mælingar hófust árið 2018.

Rúmlega 5 þúsundir íbúðir til sölu

Í upphafi októbermánaðar voru 5.233 íbúðir til sölu á landinu öllu, þar af 2.134 nýjar íbúðir. Um 3.200 íbúðir voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu en um 1.100 íbúðir voru til sölu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og rúmlega 900 annars staðar á landsbyggðinni. Íbúðum á sölu fjölgaði um 140 í september.

Hér má sjá skýrslu HMS

Heimild: Mbl.is