Home Fréttir Í fréttum Vinna hafin við að hækka varnargarðana við Grindavík

Vinna hafin við að hækka varnargarðana við Grindavík

21
0
Jón Haukur Steingrímsson er jarðverkfræðingur hjá Eflu. RÚV – Víðir Hólm Ólafsson

Framkvæmdir við varnargarða norðan Grindavíkur hófust í gærmorgun. Áætlað er að hækka garðana um tæplega þrjá metra á um fjögurhundruð og fimmtíu metra kafla. Jarðverkfræðingur segir brýnt að klára verkið sem fyrst.

Vinna er hafin að viðbótum við varnargarða norðan Grindavíkur. Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, segir að þrátt fyrir að verkefnið sé smærra í sniðum en áður sé brýnt að klára það sem fyrst.

„Við erum að fara að hækka garðinn frá þeim stað sem við stöndum núna og upp á hornið þar sem þeir mætast fyrir ofan bæinn, varnargarðurinn sem er austan við bæinn og varnargarðurinn norðan við bæinn. Þetta er um fjögur hundruð og fimmtíu metra kafli sem er að hækka um svona tvo og hálfan, mest þrjá metra.“

Vinna við varnargarða umhverfis Grindavík hefur staðið yfir í tæplega tvö ár. Sú vinna sem hófst í morgun, norðan við Grindavík, er merkt á kortinu með grænum lit.
Aðsent / Verkís

Kostnaður 80-120 milljónir króna

Markmiðið er að vernda bæinn fyrir mögulegu hraunflæði en áætlað er að framkvæmdir taki tvær vikur. Fimm verktakar koma að verkefninu og mun kostnaður hlaupa á um 80 til 120 milljónum króna. Jón Haukur segir framkvæmdirnar minni í sniðum en áður.

„Þetta er flutningur á efni upp á einhverja 25 þúsund rúmmetra. Heildarumfangið á öllu verkefninu hérna er þrjár milljónir rúmmetra, þannig að þetta er í sjálfu sér alls ekki mikið, þetta er bara frekar lítið þannig séð.“

Brýnt að ráðast í hækkunina

Dómsmálaráðherra samþykkti tillögu um viðbæturnar við varnargarðana á miðvikudag, en minnisblað þess efnis hafði legið á borði ráðherra frá því í vor.

Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi hafa verið stöðug undanfarnar vikur og hefur kvikumagn náð neðri mörkum þess sem þarf til að kvikuhlaup og jafnvel eldgos hefjist.

Jón Haukur segir að með tilliti til þess sé borðleggjandi að klára verkið sem fyrst.

„Ef við horfum á reynsluna erum við með einhverja tólf kílómetra af varnargörðum hringinn í kringum Svartsengi og Grindavík og þeir hafa sýnt gildi sitt ítrekað og það var eftir þessi veikleiki í kerfinu síðan í apríl,“ segir Jón Haukur.

„Þó gosið þar hafi verið í sjálfu sér mjög lítið, þá tók það samt af þessari virku hæð á görðunum og það hefði verið frekar óheppilegt að missa síðan þá eitthvað yfir þetta örstutta gat.“

Heimild: Ruv.is