Home Fréttir Í fréttum Telur verk­taka hafa svigrúm til að lækka verð

Telur verk­taka hafa svigrúm til að lækka verð

112
0
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Ljósmynd: Aðsend mynd

Seðlabankinn telur góða afkomu í byggingageiranum síðustu ár benda til þess að verktakar hafi borð fyrir báru að lækka ásett verð.

Þótt umsvif í byggingageiranum hafi minnkað lítillega og verð fasteigna lækkað lítillega að raunvirði gefa markaðsaðstæður samt sem áður hvorki til kynna mikla söluerfiðleika né að lausafjárvandi og greiðsluerfiðleikar vofi almennt yfir greininni á næstunni. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabankinn gefur út.

„Tiltölulega hátt verðálag, hátt markaðsverð og góð afkoma í geiranum á síðustu árum benda til þess að borð sé fyrir báru að lækka ásett verð og hraða sölunni ef þess gerist þörf,” segir í ritinu.

Þar kemur jafnframt fram að á fyrri helmingi ársins hafi kaupendum fyrstu fasteignar fjölgað lítillega á milli ára og á sama tíma hafi hlutfall þeirra af heildarfjölda íbúðakaupenda hækkað. Hlutfallið mældist 30% á fyrri helmingi ársins og var um tveimur prósentum hærra en á seinni hluta síðasta árs og tæplega fimm prósentum hærra en á sama tímabili í fyrra.

Færri kaupsamningar
Á fyrstu átta mánuðum ársins fækkaði kaupsamningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu um 6% samanborið við sama tíma árið 2024.

„Fækkunin skýrist af færri seldum nýbyggingum en þeim fækkaði um nærri þriðjung á meðan fjöldi kaupsamninga vegna annarra íbúða var nær óbreyttur á milli ára, segir í riti Seðlabankans.

„Áhrifa af kaupum ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík gætir í samanburði milli ára, þar sem töluverð umsvif voru á fyrri hluta síðasta árs vegna þeirra. Hlutfall nýbygginga af heildarfjölda seldra íbúða á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu átta mánuðum ársins var um 15%, samanborið við rúmlega 20% á sama tímabili 2024. Frá árinu 2018 hafa tæplega 20% seldra íbúða verið nýbyggingar og er hlutfallið á þessu ári því undir meðaltali síðustu ára.”

Heimild: Vb.is