Home Fréttir Í fréttum Fá bætur fyrir gröfuna sem fór í höfnina á Borgarfirði

Fá bætur fyrir gröfuna sem fór í höfnina á Borgarfirði

65
0

Yl hf. á Egilsstöðum hafa verið dæmdar tæpar 30 milljónir króna í bætur fyrir gröfu sem skemmdist þegar hún lenti ofan í höfninni á Borgarfirði eystra í ágúst árið 2022. Í málinu var einkum deilt um skilgreiningu á hvað teldist hrap og snéri Landsréttur við niðurstöðu héraðsdóms sem dæmdi tryggingafélaginu í hag.

Atvikið varð 16. ágúst árið 2022. Það vakti strax athygli því það náðist á myndavél í Hafnarhólma, sem ætluð er til að fylgjast með fuglalífinu. Austurfrétt birti myndskeiðið sem varð hluti af gögnum málsins.

Óhappið varð við dýpkun hafnarinnar þegar verið var að nota vélina við að fleyga úr höfninni. Hún stóð þá á grjótpúða sem var landfastur. Stjórnandi vélarinnar var allan tímann staðfastur á að púðinn hefði gefið sig skyndilega og hann því ekki haft nein tök á að bregðast við.

Í dómi Landsréttar segir að sá framburður hans virðist eiga stuðning í myndbandinu. Þar sjáist að vélin fari „skyndilega af stað og að því er virðist undirstaðan líka.“

Tryggingafélagið beri ábyrgð á sínum skilmálum

Tryggingafélagið Vörður lagði hins vegar fram aðra túlkun á atburðarásinni auk annarra ástæðna fyrir því hvers vegna það ætti ekki að verða við kröfum Yls. Tryggingafélagið hélt því meðal annars fram að á myndbandinu mætti sjá belti gröfunnar snúast þegar hún fari í sjóinn en á það féllst Landsréttur ekki. Fyrir réttinum dró félagið í land og sagði ekki byggt á að vélinni hefði verið ekið í sjóinn.

Vörður hélt því einnig fram að stjórnendum Yls hefði borið að upplýsa að vélin væri nýtt í hafnarframkvæmdir, sem væru áhættusamari en aðrar eins og þetta atvik sannaði. Það hefði þar með áhrif á forsendur tryggingarinnar. Tryggingaskilmálarnir virðast hins vegar aðeins undanskilja tæki sem eru að störfum á strandvinnupalli eða prömmum en Landsréttur taldi það ekki eiga við grjótpúðann.

Landsréttur benti á að skilmálarnir væru samdir einhliða af Verði og því bæri fyrirtækið allan halla af því að þeir væru ótryggir. Þá taldi rétturinn ekki um það óvenjulega notkun að ræða að um hana hefði átt að upplýsa. Ekkert kom heldur fram um að grjótpúðinn hafi verið ófullnægjandi eða rangt staðið að verkinu.

Að renna eða hrapa?

Aðaldeilan snérist um túlkun í tryggingaskilmálunum að bæta beri tjón af völdum „hraps, grjóthruns eða skriðufalla.“ Bæði Landsréttur og héraðsdómur voru sammála um að hvorki væri um grjóthrun né skriðufall að ræða, því þá félli efni á tækið.

Þegar héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu felldi hann sönnunarbyrðina á Yl, þar sem fyrirtækið sækti málið bæri því að sanna að tryggingaskilmálarnir, sem væru tæmandi, næðu yfir tjónið. Sem fyrr segir snéri Landsréttur skilmálunum upp á Vörð, það bæri ábyrgð á óskýrleika þeirra.

Héraðsdómur taldi líka að grjótpúðinn hefði gefið sig en vildi meina að vélin hafi „runnið“ fram af en ekki „hrapað“. Báðir dómstólarnir vísuðu í eldri dóma um að hrap þurfi ekki að vera hátt. Það þarf hins vegar að teljast skyndilegt. Niðurstaða Landsréttar var að grjótpúðinn hefði gefið sig þannig vélin fór í sjóinn. Það hafi verið slys vegna utanaðkomandi þátta og falli þar með undir skilmála um hrap.

Fullnaðarsigur Yls

Einnig var deilt um bætur fyrir að koma gröfunni upp úr sjónum en það kostaði 2,2 milljónir króna. Vörður hafði fallist á það skriflega í kjölfar óhappsins að greiða þann kostnað, jafnvel þótt ekki væri kveðið á um það í tryggingaskilmálunum en tók fram að í því fælist ekki viðurkenning á bótaskyldu.

Ylur hélt því samt fram að það jafngilti játningu þar um en á það féllst Landsréttur ekki. Landsréttur taldi hins vegar sannað að fyrirtækið hefði skuldbundið sig til að greiða björgunarkostnaðinn, jafnvel þótt heildarupphæðin færi fram yfir hámarkstryggingu gröfunnar upp á 28 milljónir.

Um var að ræða 40 tonna beltagröfu, nýskráða árið 2020. Hún var metin á 26,7 milljónir þegar óhappið varð. Ylur fór fram á 28,9 milljónir með vöxtum frá tjónsdegi. Landsréttur dæmdi Vörð til að greiða 28,7 milljónir með vöxtum, en mismunurinn felst í sjálfsábyrgð Yls upp á rúmar 220.000 krónur. Tryggingafélagið þarf einnig að greiða allan málskostnað upp á 3,4 milljónir.

Heimild: Austurfrett.is