
Miðvikudaginn 17. september var stigið mikilvægt skref í uppbyggingu Vaðölduvers þegar Ístak steypti fyrstu undirstöðuna fyrir vindmyllurnar 28 sem reistar verða á svæðinu.
Ákveðið var að byrja á að steypa undirstöðu fyrir vindmyllu númer 13. Þrátt fyrir númerið gekk steypan afar vel og tók um 14 klukkustundir að ljúka verkinu, að því er fram kemur á vef Landsvirkjunar.
Í undirstöðuna fóru um 70 tonn af stáli og rúmlega 400 rúmmetrar af steypu.
Þetta þýðir að í allar undirstöðurnar munu fara 1.960 tonn af stáli. Ekki veitir af sterkum undirstöðum því að hámarkshæð hverrar vindmyllu með spaða er 150 metrar.
Heimild: Mbl.is