Home Fréttir Í fréttum Gömul geymsla frá Varnarliðinu eyðilagðist í bruna

Gömul geymsla frá Varnarliðinu eyðilagðist í bruna

24
0
Slökkviliðsmenn Brunavarna Suðurnesja feta sig í átt að alelda húsi meðan dökkan reyk leggur yfir veginn. Michał Murawski

Geymsla gjöreyðilagðist í eldi á Ásbrú í morgun. Búið var að safna upp miklu drasli við húsið og byrgja glugga svo rjúfa þurfti þakið til að slökkva eldinn.

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja voru kallaðir út á sjöunda tímanum í morgun eftir að eldur kviknaði í húsi á Ásbrú. Í fyrstu var ekki vitað hvers kyns hús brynni en þegar slökkvilið kom á staðinn kom í ljós að geymsla sem Varnarliðið skildi eftir sig var alelda.

Davíð Heimsson, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, segir að aðstæður hafi verið mjög erfiðar. Mikið var af drasli við húsið og búið að byrgja alla glugga þess. Því var erfitt að komast að eldinum. Þar að auki var leiðindaveður sem gerði slökkvistarf erfiðara.

Barist við eldinn í morgun.
Michał Murawski

Þó gekk ágætlega að ráða við eldinn og eftir að krabbi frá Bílaflutningum Kristjáns var fenginn til að rjúfa þakið var hægt að slökkva eldinn. Húsið er ónýtt.

Unnið hefur verið að því fram eftir morgni að tryggja húsið og fjarlægja þakplötur svo þær fjúki ekki í hvassviðri sem spáð er næstu daga.

Davíð segir að mjög mikill eldmatur hafi verið í húsinu sem er líklega um 300 fermetrar að stærð. Þar hafði verið safnað saman verkfærum og bílavarahlutum.

Heimild: Ruv.is