Home Fréttir Í fréttum Nýtt hjúkrunarheimili rís í Þorlákshöfn

Nýtt hjúkrunarheimili rís í Þorlákshöfn

48
0
Mynd: Dfs.is

Sveitarfélagið Ölfus og Íslenskar fasteignir ehf. hafa undirritað samkomulag um úthlutun lóðar fyrir byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Þorlákshöfn. Heimilið verður staðsett við Egilsbraut og Mánabraut, í næsta nágrenni við Lífsgæðasetur aldraðra, og er órjúfanlegur hluti af stærra þróunarverkefni sem nær einnig til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis við Óseyrarbraut.

Markmiðið með byggingu hjúkrunarheimilisins er að styrkja þjónustu við eldri borgara og bæta lífsgæði þeirra til framtíðar. Með þessu samstarfi er stigið mikilvægt skref til að mæta vaxandi þörf fyrir hjúkrunarrými í Ölfusi og á Suðurlandi öllu.

Stefnt er að því að frumhönnunar- og skipulagsvinnu ljúki síðla hausts 2025, en að því loknu verður hægt að ráðast í næstu skref uppbyggingarinnar.

„Ölfusið er í miklum vexti bæði hvað varðar íbúafjölda og atvinnutækifæri. Innviðauppbygging er lykilþáttur í því að vel takist til. Hjúkrunarheimilið er eitt af lykilverkefnum okkar til að tryggja góða þjónustu fyrir eldri íbúa Ölfuss,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri.

„Við vinnum nú þegar að stórum verkefnum í Ölfusi og okkur er sönn ánægja að leggja okkar af mörkum í uppbyggingu þjónustu við eldri borgara. Við hjá Íslenskum fasteignum búum yfir sérþekkingu sem mun nýtast vel í hönnun og framkvæmd á þessu mikilvæga verkefni, í nánu samstarfi við sveitarfélagið,“ segir Gunnar Thoroddsen, stjórnarformaður Íslenskra fasteigna.

Samkomulagið kveður á um að lóðinni verði úthlutað án lóðar- eða byggingaréttargjalda, en greidd verði gatnagerðar- og skipulagsgjöld samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins. Með því sýnir Ölfus skýra samfélagslega ábyrgð og setur velferð eldri íbúa í forgang.

Uppbyggingin mun ekki aðeins styrkja Þorlákshöfn sem blómlegt samfélag heldur einnig stuðla að bættri öldrunarþjónustu á Suðurlandi í heild.

Heimild: Dfs.is