Home Fréttir Í fréttum Önnur vatnsaflsvirkjun gæti senn risið við Lagarfoss

Önnur vatnsaflsvirkjun gæti senn risið við Lagarfoss

24
0
Mynd: Austurfrett.is

Um rúmlega eins árs skeið hefur Orkusalan, rekstraraðili Lagarfossvirkjunar, unnið að því að kanna möguleika á að setja upp aðra vatnsaflsvirkjun gengt núverandi stöð til að nýta verulegt umframrennsli sem fer framhjá núverandi stöð í leysingum og miklum rigningum.

Hugmyndin, að sögn Magnúsar Kristjánssonar, forstjóra Orkusölunnar, er að nýta töluvert mikið umframrennslið til að auka afl virkjunarinnar með uppsetningu einnar vélar í nýju stöðvarhúsi norðanmegin fljótsins. Með þeim hætti mætti auka framleiðslu virkjanasvæðisins við Lagarfoss um sex til tíu megavött með sama 17 metra vatnsfalli í nýrri stöð.

„Vettvangsrannsóknir hafa þegar hafist vegna þessa og ef allt gengur að óskum gæti ný vél verið tekin í notkun árið 2028. Rennsli í Lagarfljóti er mjög breytilegt og á köldum vetrum er það stundum minna en 180 kúbikmetrar sem er það magn sem núverandi vélar geta annað. Við þær aðstæður þarf að skerða framleiðslu en á móti kemur að umframrennslið í vorleysingum, við sumarúrkomu og með hausthlýindum getur orðið mun meira sem ekki er að nýtast í dag.“

Aðspurður hvers vegna ekki væri hægt að stækka núverandi stöð eins og gert hefur verið einu sinni áður segir Magnús þrjár ástæður fyrir þeirri ákvörðun.

„Ástæður þess að norðurbakkinn er valinn eru einkum þrjár: [Núverandi] aðrennslisskurður annar ekki meira vatni, það er of þröngt í núverandi stöð til að koma þriðju vélinni vel fyrir og stækkun á austurbakkanum myndi kalla á tólf til átján mánaða stopp með verulegu framleiðslutapi.“

Magnús segir ekki ljóst á þessu stigi hvort ný stöð norðanmegin þurfi að fara í formlegt umhverfismat en menn gæla við að nýtt stöðvarhús og ný vél gætu verið komið í gagnið að þremur árum liðnum.

Heimild: Austurfrett.is