Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hyggst endurskoða lög um brunatryggingar með það að markmiði að auka hvata húseigenda til að sinna brunavörnum í gegnum brunatryggingar.
Þetta sagði ráðherra í samtali við mbl.is að lokinni ráðstefnu um brunavarnir sem haldin var í vikunni en tilefnið var að fimm ár eru liðin frá voveiflegum eldsvoða á Bræðraborgarstíg þar sem þrír létu lífið.
Í kjölfarið af brunanum lagðist Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ásamt fleiri fagaðilum í ítarlega greiningarvinnu á því hvernig bæta mætti brunavarnir í landinu og var niðurstaðan þrettán liða aðgerðaáætlun.
Allar tillögur HMS fyrir utan eina hafa orðið að veruleika en síðasta tillagan felur einmitt í sér fyrrnefnda endurskoðun á lögum um brunatryggingar með það að markmiði að búa til hvata til að hafa brunavarnir í lagi.
Mikilvægt að það séu hvatar
Hér á landi er skylda að tryggja húsnæði fyrir bruna en í erindi sínu á ráðstefnunni í vikunni talaði Daði Már um að því fylgdi sá galli að hvata skorti til eftirfylgni þegar kemur að brunavörnum.
Í samtali við mbl.is segir hann að mikilvægt að búa slíka hvata til.
„Ég held að það sé mikilvægt að það séu hvatar og það er nú svona tilhneiging alltaf til þess að halda niður kostnaði, sérstaklega varðandi leiguhúsnæði. Það er auðvitað ekkert óeðlilegt við það en það má ekki byggja á öryggi eða má ekki bitna á öryggi íbúanna,“ segir Daði.
Spurður hvernig slíkir hvatar myndu líta út segir hann:
„Þetta eru þá hvatar til þess að húsnæðið uppfylli ákveðnar kröfur áður en hægt er að veita trygginguna. Við þurfum að útfæra það. Við höfum mjög góðar fyrirmyndir frá nágrannalöndunum um hvernig það er gert.“

Bifreiðatryggingar eru gott dæmi
Þá bendir Daði á að slíkir hvatar geti vel virkað þó að um sé að ræða skyldutryggingar en bílatryggingar eru gott dæmi um það.
„Það eru skyldutryggingar á bifreiðum en það eru líka öryggiskröfur á bifreiðum til þess að yfir höfuð sé hægt að tryggja þær. Og það er þá eitthvað slíkt sem verið er að tala um.“
Það hefur verið kallað eftir breytingum sem þessum á brunavarnartryggingalöggjöfinni í einhvern tíma. Er þetta vinna sem þú munt leggjast í núna?
„Þetta er það sem við erum að skoða,“ segir Daði.

Heimild: Mbl.is