Þess verður lengur að bíða að börn fái aftur að ganga inn á leikskólann Grandaborg í Vesturbæ Reykjavíkur. Ástæðan er sú að í ljós kom að innréttingar í skólann höfðu ekki verið pantaðar.
Til stóð að opna leikskólann á ný í desember á þessu ári en ný dagsetning verkloka er 1. mars á næsta ári.
Í skeyti frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, sem sent var foreldrum barna í leikskólanum í vikunni, eru tafir á verklokum harmaðar og foreldrum tjáð að sviðið hafi skilning á auknu álagi sem þær geta valdið.
Í orðsendingunni segir einnig að eftir framkvæmdalok þurfi skoðun frá heilbrigðiseftirliti áður en hægt verði að hefja starfsemi.
Lítið að gera nema bíða og vona það besta
Til skýringar á töfunum er nefnt að í ljós hafi komið að innréttingar, sem talið var að fyrri verktaki hefði pantað, hafi alls ekki verið pantaðar. Umræddur verktaki sagði sig frá verkinu.
„Nýi verktakinn hefur lagt kapp á að reyna að láta allt ganga upp án mikilla tafa en oft er afgreiðslutími aðfanga langur og lítið við því að gera nema bíða og vona það besta,“ segir í skeytinu.
Grandaborg var lokað í október árið 2022 eftir að skólplögn fór í sundur undir húsinu og mengun greindist í jarðvegi.
Upphaflega átti framkvæmdum á leikskólanum að ljúka í lok þessa sumars en tafir urðu til þess að framkvæmdalokum var frestað fram í desember. Nú hefur þeim eins og áður sagði verið frestað fram í mars á næsta ári.
Hafa áhrif á fjölskyldur fleiri barna
25 börn höfðu þegar fengið úthlutað leikskólaplássi á Grandaborg í haust.
Tafirnar hafa þó áhrif á fjölskyldur fleiri barna því til stóð að hluti barna sem eiga að vera á leikskólanum Hagaborg við Fornhaga færi yfir á Grandaborg þegar framkvæmdum þar lyki.
Hagaborg var lokað í ágúst vegna myglu og börnin færð á þrjá staði; Barónsborg, Vörðuborg og í nýleg hús á lóð Hagaborgar.
Auðséð er að raskið og seinkunin munu hafa mikil áhrif á foreldra barna í leikskólunum tveimur.
Heimilf: Mbl.is