Sé tekið mið af viðskiptum með 10% hlut í Skógarböðunum í fyrra er virði félagsins um 3 milljarðar.
Norðurorka hf. hefur ákveðið að setja 4,54% eignarhlut sinn í Skógarböðum ehf. í opið söluferli og býður áhugasömum fjárfestum að gera tilboð í hlutinn.
Skógarböð ehf. heldur utan um samnefnt baðlón á Akureyri við rætur Vaðlaheiðar en félagið hagnaðist um 210 milljónir króna á árinu 2024 samanborið við 153 milljóna hagnað árið 2023.
Hagnaður félagsins jókst því um 37% milli ára.
Einblína á kjarnastarfsemi
Skógarböðin, sem opnuðu í maí 2022, hafa á skömmum tíma orðið einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Norðurlandi.
Á síðasta ári sóttu um 150 þúsund gestir baðlónið og veltan nam tæpum milljarði króna.
Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku segir að félagið hafi verið stolt af því að koma að uppbyggingu Skógarbaða, en starfsemi Norðurorku snúi fyrst og fremst að rekstri veitna við Eyjafjörð og í Fnjóskadal.
Þar sem frekari uppbygging, þar á meðal bygging hótels, sé fyrirhuguð við Skógarböðin, hafi stjórn Norðurorku ákveðið að selja hlut sinn og einbeita sér að kjarnastarfsemi félagsins.
Heimild: Vb.is