
Hægt verður að endurbæta rúma 120 kílómetra af þjóðvegum landsins í kjölfar aukafjárveitingar sem Vegagerðin fékk á árinu. Deildarstjóri hjá Vegagerðinni segir mikilvægt að geta nú farið í fyrirbyggjandi viðhald til lengri tíma.
Vegagerðin fékk þrjá milljarða króna aukalega í sumar til framkvæmda og hefur nýtt þetta fjármagn fyrst og fremst til að gera við vegi, endurbyggja og malbika.
„Það fóru öll hjól af stað um leið og fjárveitingin kom“
Fjárveitingin kom seint, en verk voru tilbúin í útboð hjá Vegagerðinni og verktakar voru tilbúnir. „Og það fóru bara öll hjól af stað um leið og fjárveitingin kom og var byrjað strax á verkefnunum. Við erum að sjá fram á að klára öll verkefnin í september,“ segir Stefán Þór Pétursson, deildarstjóri umsjónardeildar á norðursvæði Vegagerðarinnar.
Viðhaldsþörfin var mest á Vestursvæði Vegagerðarinnar þar sem tæpir 54 kílómetrar verða lagaðir. Á Norðurlandi eru þetta tæpir 28 kílómetrar, 29 kílómetrar á Suðurlandi og á Austurlandi verður gert við rúma 14 kílómetra.
Viðgerðir sem endast munu næstu ár
Verktakar eru að störfum víða um land, fræsa upp slitnar klæðningar, keyra í vegi og endurnýja burðarlag og malbika. Gott dæmi um gagnsemi þessara framkvæmda er tæplega fjögurra kílómetra kafli í Bakkaselsbrekku í Öxnadal, afar viðhaldsfrekur kafli sem nú hefur verið malbikaður. „Þetta á eftir að gera það að verkum að við þurfum ekki að hugsa um yfirlögn á þessum kafla, vonandi næstu tíu árin,“ segir Stefán.
Svigrúm til að sinna fyrirbyggjandi verkefnum næstu árin
Og með því að ná að ljúka þessum verkefnum núna gefist vonandi svigrúm á næstu árum til að sinna enn fleiri fyrirbyggjandi verkefnum. „Þá getum við farið í fleiri svona verkefni og lengri kafla, í stað þess að vera að slökkva elda stanslaust.“
Heimild: Ruv.is