Ístak byggir nýtt fjölnota íþróttahús í Borgarbyggð og ganga framkvæmdir samkvæmt áætlun. Stálgrind hússins rís þessa dagana og fer nú að myndast skýr heildarmynd af verkinu.
Frá upphafi hefur Ístak lagt sérstaka áherslu á að vinnan fari fram á öruggan og faglegan hátt, byggt er á svæði þar sem mikil gangandi umferð er og sér í lagi mikið af börnum. Í upphafi framkvæmdanna voru settar upp auknar öryggisráðstafanir fyrir gangandi vegfarendur vegna aukinnar þungaumferðar á svæðinu. Þær hafa reynst vel og er ánægjulegt að sjá verktaka og samfélagið vera samstíga um að tryggja öryggi allra sem um svæðið fara.
Húsið verður bæði einangrað og upphitað og mun skapa fyrsta flokks íþróttaaðstöðu fyrir sveitarfélagið. Með tilkomu þess munu bæði börn og fullorðnir í Borgarbyggð fá nútímalega aðstöðu til æfinga og fjölbreyttra viðburða.
Áætlað er að íþróttahúsið verði tilbúið til notkunar haustið 2026.
Heimild: Istak.is