Vegafarendur á leið um einn fjölfarnasta þjóðveg landsins, Suðurlandsveg í útjaðri Reykjavíkur, geta senn fagnað nýjum áfanga sem bætir umferðarflæði og eykur öryggi.
Í fréttum Sýnar mátti sjá hvar verið var að malbika nýjar akreinar. Vinnuflokkur Malbiksstöðvarinnar nýtir veðurblíðuna þessa dagana til að bika nýjar akreinar Suðurlandsvegar.
„Þetta er svona lokahnykkurinn hérna. Kom inn sem viðbótarverk í fyrra og við erum loksins að sjá fyrir endann á þessu,“ segir Árni Geir Eyþórsson, framkvæmdastjóri Jarðvals.

Lýður Valberg Sveinsson
Það eru raunar liðin fjögur ár frá því verktakinn Jarðval hóf tvöföldun vegarins milli Fossvalla og Lögbergsbrekku og tvö ár frá því upphaflegi verkhlutinn, liðlega þrír kílómetrar, var opnaður umferð. En svo var bætt við verkið um 1.300 metra kafla milli Lækjarbotna og Gunnarshólma en hann verður malbikaður í tveimur áföngum.
„Þessi áfangi verður tekinn í notkun vonandi sem fyrst. En við verðum að hleypa íbúunum á hann fyrst til þess að geta tekið seinni áfangann. Þannig að þetta eru svona krúsidúllur í þessu,“ segir Árni Geir.

Lýður Valberg Sveinsson
Raunar stöðvaðist verkið um tíma þegar Hornafjarðarfljót sprengdi alla fjárhagsramma samgönguáætlunar í fyrra og sogaði til sín nánast allt vegafé. Og það hafa verið ýmsar áskoranir á staðnum.
„Við erum náttúrlega að fara í gegnum mýri hérna. Að ég tala nú ekki um umferðina hérna sem er alltaf að aukast.“
-Miðað við umferðina sem er hérna í útjaðri Reykjavíkur, þetta teljast vegarbætur?

Lýður Valberg Sveinsson
Það er alveg klárt mál, sko. Þetta eru náttúrlega stór gatnamót í raun og veru.
Við erum að setja líka samhliða þessu niður hérna fimmtíu ljósastaura. Þannig að þetta er allt upplýst.
Aðreinar verða miklu öruggari inn á Suðurlandsveginn. Allt upplýst og til mikilla bóta.“
Og allur kaflinn ætti að vera tilbúinn í október, að sögn framkvæmdastjóra Jarðvals.
„Ég held að við finnum það öll sem komum að austan; eftir að við byrjuðum hérna, að fá tvöföldunina nánast frá Sandskeiði. Þetta er alveg allra meina bót.“

Lýður Valberg Sveinsson
-Þó að þetta sé ekki risaáfangi, það munar samt um þetta?
„Alveg. Heldur betur,“ segir Árni Geir.
En svo er það spurningin: Hvenær verður klárað að tvöfalda þá sjö kílómetra sem eftir eru inn til borgarinnar, milli Rauðavatns og Gunnarshólma? Svarið fæst vonandi í þeirri samgönguáætlun sem innviðaráðherra hyggst leggja fram á Alþingi núna á haustdögum.
Heimild: Visir.is