
Tilboði Sparra ehf., 29 ára gömlu byggingarfyrirtæki á Suðurnesjum, í verk á öryggissvæðinu í Reykjanesbæ var hafnað þrátt fyrir að vera lægsta boð. Ástæðan er sú að boðinn verkefnastjóri var ekki með tilskilda háskólamenntun, en hann er þó með áratuga reynslu af byggingastjórnun.
Kærunefnd útboðsmála hefur hafnað kröfum Sparra ehf. um að fella úr gildi ákvörðun Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna, fyrir hönd Landhelgisgæslunnar, um að taka tilboði E. Sigurðssonar ehf. í útboði vegna endurbóta á byggingu á öryggissvæði við Keflavíkurflugvöll.
Málið á rætur að rekja til þess að tilboði Sparra, sem var lægst að fjárhæð, var hafnað af Framkvæmdasýslunni þar sem boðinn verkefnisstjóri félagsins uppfyllti ekki menntunarkröfu útboðsgagna – að vera tæknimenntaður með grunnmenntun á háskólastigi.
Sparri hugðist hafa Halldór Viðar Jónsson, framkvæmdastjóra Sparra, sem verkefnastjóra en hann hefur starfað við slíka verkefnastjórnun í nokkra áratugi.
„Þá er ekkert vesen“
Sparri hélt því fram að krafan væri óskýr, óþörf og útilokaði með ómálefnalegum hætti verktaka með mikla reynslu. Úrskurðarnefndin segir þó að krafan um menntun hafi verið skýr í útboðsgögnunum.
Verkið sem um ræðir felur í sér endurbætur á varnarmannvirki Landhelgisgæslunnar innan öryggissvæðis Keflavíkurflugvallar. Sparri bauðst til að framkvæma verkið fyrir 438.121.807 krónur en E. Sigurðsson bauðst til að framkvæma verkið fyrir 438.804.242 krónur.
Oddgeir Arnar Jónsson, annar eigandi Sparra og bróðir Halldórs, segir í samtali við mbl.is að Sparri hafi síðustu 4-5 ár unnið að verkefnum á öryggissvæðinu fyrir Landhelgisgæsluna. Nær undantekningarlaust hafi Halldór verið verkefnastjóri í þeim verkefnum.
„Það sem þeir láta bjóða út sjálfir [Landhelgisgæslan] þá er ekkert vesen,“ segir Arnar og útskýrir að aðeins komi upp vandamál þegar Framkvæmdasýslan á í hlut.
Sjálfur er Arnar búinn að vera byggingarstjóri í áratugi, en hann er með 55 ára reynslu í byggingariðnaðinum.
„Um var að ræða málefnalega kröfu“
Samkvæmt Hildi Georgsdóttur, framkvæmdastjóra þjónustusviðs hjá Framkvæmdasýslu ríkisins, þurfti verkefnastjóri meðal annars að samhæfa verktaka, tryggja öryggi og uppfylla strangar kröfur um gæðastjórnun m.a. vegna eðlis þess verks sem um ræðir.
„Vegna þess var gerð krafa um tæknimenntun á háskólastigi auk að lágmarki 5 ára sambærilegrar reynslu í samræmi við heimildir laga um opinber innkaup. Um var að ræða málefnalega kröfu sem var fyllilega í samræmi við eðli verksins sem um ræðir,“ segir hún í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
„Sparri ehf. fékk ekki verkið þar sem tilboð þeirra var ógilt og uppfyllti ekki hæfiskröfur útboðsins,“ skrifar hún.
Krafa um háskólamenntun skýr í útboðsgögnunum
Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að krafan um háskólamenntun hefði verið skýr frá upphafi útboðsins, og að kærufrestur vegna hennar hefði runnið út áður en kæra barst.
Þar sem óumdeilt var að verkefnisstjóri Sparra hafði ekki slíka menntun uppfyllti tilboðið ekki lágmarksskilyrði og var því ógilt samkvæmt lögum um opinber innkaup.
Sparri hafði einnig véfengt að E. Sigurðsson ehf. uppfyllti allar hæfiskröfur, en samkvæmt gögnum nefndarinnar hafði verkefnisstjóri þess félags B.Sc.-gráðu í byggingaverkfræði og uppfyllti kröfurnar.
Öllum kröfum Sparra var því hafnað og sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar, sem fylgdi kæru, var aflétt.