Steinþór Jónsson, hótelstjóri á Hótel Keflavík, undirbýr mikla uppbyggingu við hótelið. Gengur hún út á að fjölga herbergjum um 100 og verða þá alls 177 herbergi á hótelinu og á nálægu gistiheimili.
Samhliða stendur til að byggja upp nýja miðstöð ferðaþjónustu í Keflavík og íbúðir en vinnuheiti verkefnisins er KEF Center.
„Við erum opin fyrir því að fá meðfjárfesta. Þessi framtíðaráform á svæðinu kosta aldrei minna en 4-5 milljarða,“ segir Steinþór sem hyggst líka byggja upp lúxusgistingu og móttökuhús í Vatnsneshúsinu.
Steinþór opnaði heilsulindina KEF Spa & Fitness síðasta haust en það verkefni kostaði tæpan milljarð.
„Fyrstu vikurnar í fyrra vorum við að prófa okkur áfram og leggja lokahönd á hlutina, eins og gengur. Strax á þessu ári – ég myndi segja frá því í mars – hefur verið fullbókað hjá okkur þessa aðaldaga sem eru fimmtudagur, föstudagur og laugardagur.
Það eru fyrst og fremst landsmenn sem eru að koma til okkar í hópum og pör. Saumaklúbbar og íþróttahópar hafa verið áberandi og hér hafa farið fram gæsanir og aðrir viðburðir,“ segir Steinþór en ítarlega er rætt við hann á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag.
Heimild: Mbl.is