Home Fréttir Í fréttum Hvammsvirkjun bíður dóms Hæsta­réttar

Hvammsvirkjun bíður dóms Hæsta­réttar

48
0
Séð yfir áhrifasvæði Hvammsvirkjunar. Stöðvarhúsið verður neðanjarðar. Frárennslisskurðurinn sést hægra megin. Ofar sést Búrfell. Landsvirkjun

Nýsamþykkt lög, sem ætlað var að eyða óvissu um Hvammsvirkjun í Þjórsá, setja framkvæmdir samt ekki á fulla ferð. Forstjóri Landsvirkjunar segir að bíða verði eftir dómi Hæstaréttar.

Í fréttum Sýnar var rifjað upp að það var í janúar síðastliðinn sem Héraðsdómur Reykjavíkur felldi virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi. Mánuði síðar lagði Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis- og orkumála, lagafrumvarp fram á Alþingi í því skyni að eyða óvissu um virkjunina. Um líkt leyti veitti Hæstiréttur íslenska ríkinu og Landsvirkjun leyfi til að áfrýja málinu beint til réttarins, án viðkomu í Landsrétti.

Jóhann Páll Jóhannsson er umhverfis-, orku- og loftslags­ráðherra.
Vísir/Vilhelm

Alþingi er núna búið að lögfesta frumvarpið og fagnaði ráðherra því sérstaklega í síðustu viku að hann hefði sent það forseta Íslands til undirritunar. Sagði óvissu um Hvammsvirkjun hafa verið eytt. En eru þá framkvæmdir þar að fara á fullt?

„Nei, þessi lagasetning hefur engin áhrif á stöðu verkefnisins núna,” svarar Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Og segir að bíða verði dóms Hæstaréttar en málflutningur fór fram þann 18. júní.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Sigurjón Ólason

„Það ræðst algerlega af niðurstöðu Hæstaréttar hver staða verkefnisins er. Við erum núna í undirbúningsframkvæmdum. En sú lagasetning sem var á Alþingi núna hefur engin áhrif á dóminn. Dómurinn dæmir eingöngu út frá þeim lögum sem voru á þeim tíma sem málið fjallar um.

En lagasetningin verður hins vegar mjög jákvæð fyrir framtíðarverkefni og fyrir öll önnur verkefni, – svo stór verkefni á Íslandi. Ef túlkun héraðsdóms heldur eða hefði haldið þá væru allskonar verkefni í miklu uppnámi,” segir forstjórinn.

Ný Þjórsárbrú er fyrirhuguð um einn kílómetra ofan við fossinn Búða og eyjuna Árnes.
Teikning/Vegagerðin

En kannski er það nýja Þjórsárbrúin á móts við þorpið Árnes sem einna mest er horft til í tengslum við virkjunina enda mun hún ásamt tengivegum stytta vegalengdir verulega milli uppsveita Árnes- og Rangárvallasýslu. En hvenær verður þá hægt að byrja á henni?

„Ja, ef þú getur sagt mér niðurstöðu Hæstaréttar..,” svarar Hörður og segir verkefnin tengjast. Efni úr frárennslisskurði virkjunarinnar verði notað í vegagerðina.

Heimild: Visir.is