
Benedikt Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir lög sem tóku gildi árið 2015 koma í veg fyrir það að hægt sé að sniðganga einhliða greiðslu dráttarvaxta.
Hann segir það almennt ekki tíðkast að ríkið og sveitarfélög neiti að greiða dráttarvexti af skuldum sínum.
Reykjanesbær hefur verið í umræðunni síðastliðnar vikur meðal annars vegna þess að sveitarfélagið hefur verið sagt greiða skuldir sínar til verktaka seint og illa. Verktakarnir hafa lýst því að sveitarfélagið neiti að greiða dráttarvexti.
Greiða ekki dráttarvexti samkvæmt bókun
Á fundi bæjarráðs á föstudaginn síðastliðinn skilaði meirihlutinn í bæjarráðinu inn bókun þar sem meirihlutinn varðist þeirri umfjöllun sem hefur verið síðustu vikur um fjárhag bæjarins.
„Reykjanesbær sem sveitarfélag sem gætir að fjármunum skattgreiðenda sinna greiðir ekki dráttarvexti. Það gerir íslenska ríkið ekki heldur og fæst sveitarfélög,“ segir meðal annars í bókun meirihlutans.
Lög um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum tóku gildi árið 2015 en í þeim lögum segir að ákvæði í samningi sem útiloki greiðslu dráttarvaxta teljist bersýnilega ósanngjarnir samningsskilmálar en það þýðir að slík ákvæði teljast ólögmæt samkvæmt samningalögum.
Lögin voru innleidd í gegnum EES-samninginn og því er um Evrópulöggjöf að ræða.
„Ég tel að það sé tilefni til þess að taka þetta til athugunar á grundvelli þessara laga. Það er ljóst samkvæmt þessum lögum að ef samið er um greiðslufrest þá getur opinber aðili ekki tekið einhliða ákvörðun að haga sér með öðrum hætti,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is.
Opinberir aðilar greiða dráttarvexti
Benedikt segir það vera á undanhaldi að opinberir aðilar neiti að greiða dráttarvexti, sér í lagi vegna gildistöku fyrrnefndra laga árið 2015.
„Fyrir setningu þessara laga þá var almennt talað um það að hið opinbera væri einn af þeim aðilum sem væri hvað grófastur þegar kæmi að því að standa í skilum. Stærri opinberar stofnanir gengu gróflega þegar kom að því að hafna greiðslu dráttarvaxta. Þessi lög hafa valdið straumhvörfum og eftir gildistöku þeirra er það ekki þannig að aðilar neiti einhliða að greiða dráttarvexti,“ segir Benedikt.
Benedikt hafnar þeirri fullyrðingu meirihlutans í bæjarráði Reykjanesbæjar að ríkið og sveitarfélög greiði almennt ekki dráttarvexti.
„Ég bara hafna þessu alfarið enda eru þessi lög skýr er varðar þetta. Þetta er ekki lögmætt ef þetta er gert einhliða. Lögin ganga framar einhverjum venjum eða hvað það er sem menn telja sig geta byggt á. Það má benda á það að þegar ríkið hefur verið dæmt til að endurgreiða ofgreidda skatta þá er skýrt að af því eru greiddir dráttarvextir og ég tel það sama eiga við hér,“ segir Benedikt um bókun meirihlutans.
Dráttarvextir eru bætur
Benedikt segist aldrei hafa heyrt af því í seinni tíð að ríkið og sveitarfélög líti svo á að lagalega beri þeim ekki að greiða dráttarvexti.
Hann segir nauðsynlegt að hafa það í huga að dráttarvextir eru í eðli sínu bætur sem greiddar eru fyrir leigu á fjármunum.
„Það má velta fyrir sér áhrifunum sem það myndi hafa ef ríkið og sveitarfélög myndu draga greiðslur og aldrei greiða af því dráttarvexti. Þá myndi kostnaðurinn enda hjá öðrum viðsemjendum viðkomandi aðila, skattgreiðendum er ekki greiði gerður með því. Rök meirihlutans um það verið sé að gæta að fé skattgreiðenda halda ekki vatni,“ segir Benedikt að lokum.
Heimild: Mbl.is