Home Fréttir Í fréttum Uppbygging í Þórsmörk verður áfram lágstemmd

Uppbygging í Þórsmörk verður áfram lágstemmd

21
0
Anton Kári Halldórsson er sveitarstjóri Rangárþings eystra. RÚV

Sveitarstjóri Rangárþings eystra segir umræðu um mikla uppbyggingu í Þórsmörk ekki standast skoðun og að vilji sveitarstjórnar sé að viðhalda lágstemmdri uppbyggingu á svæðinu.

Sveitarstjóri Rangárþings eystra á síður von á því að hótela eða baðlóna sé að vænta í Þórsmörk en þar hafa lóðir upp á tæplega 25 hektara verið auglýstar til leigu.

Lóðirnar eru í Básum, Langadal, Emstrum og Slyppigili. Þær hafa verið í deiluskipulagi svæðisins frá árinu 2017.

Ferðafélag Íslands, Útivist og Bandalag íslenskra farfugla eru þegar með byggingar og starfsemi við lóðirnar og sveitarstjóri býst ekki við breytingum á því.

Engin hótel á leiðinni

„Ákvarðanir um þessar lóðir eru teknar árið 2017. Nú erum við í rauninni bara að framfylgja þjóðlendulögunum,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, í samtali við fréttastofu.

Landsvæði Þórsmerkur er allt innan þjóðlendna og því verður að auglýsa opinberlega öll lóðaréttindi og alla nýtingu sem varir lengur en eitt ár.

„Þessi umræða sem hefur verið síðustu daga um mikla uppbyggingu innan Þórsmerkursvæðisins á ekki við rök að styðjast. Það er ekki okkar vilji og það er ekki okkar markmið.“

Anton segir að uppbygging á svæðinu verði í takt við þá starfsemi sem þar er nú þegar. Ferðafélag Íslands, Útivist og Bandalag íslenskra farfugla hafa sótt um að halda sínum lóðum.

„Það er auðvitað líklegast að þeir fái sínar lóðir áfram. Geri við okkur samning og haldi áfram sinni starfsemi og þessari lágstemmdu uppbyggingu en það eru engin gasaleg uppbyggingaráform fyrirhuguð í Þórsmörk og engar hóteluppbyggingar eða spa eða nokkuð slíkt.“

Skagfjörðsskáli í Langadal.
Sigurbjörg Metta Sigurjónsdóttir

Fjallarómantíkin að leiðarljósi

Ferðafélag Íslands hefur starfað í Þórsmörk í tæp sjötíu ár.

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir félagið hafa átt langt og farsælt samstarf við Rangárþing eystra. Hann segist vænta þess að svo verði áfram.

„Við höfum síðari ár verið að ýta á eftir því að það verði gengið frá lóðarleigusamningum þannig að við getum komist áfram með endurnýjun á skálunum hjá okkur.“

Skálarnir séu orðnir gamlir og þarfnist mikils viðhalds.

„Margir skálar voru byggðir um miðja síðustu öld og það er sannarlega kominn tími á að endurnýja þá. Það er mjög stórt verkefni sem við erum að takast á við um þessar mundir.“

Næsta verkefni sé að endurbyggja Skagfjörsskála í upprunalegri mynd en Páll segir félagið leggja áherslu á að öll endurnýjun sé í anda fjallarómantíkur sem einkennt hefur skálarekstur félagsins.

„Að halda í að þetta séu lágstemmdar byggingar með takmarkaðri þjónustu en fjallarómantíkin, fegurðin og gleðin sé höfð að leiðarljósi.“

Heimild: Ruv.is