Home Fréttir Í fréttum Bjarg íbúðafélag reisir þrjá­tíu í­búðir í Reykja­nes­bæ

Bjarg íbúðafélag reisir þrjá­tíu í­búðir í Reykja­nes­bæ

49
0
Loftmynd af Reykjanesbæ. Vísir/Egill

Fyrsta skóflustunga hefur verið tekin að nýju verkefni Bjargs íbúðafélags sem hyggst reisa 30 íbúðir við Trölladal 1-11 í Reykjanesbæ. Verkefnið nýtur stuðnings í formi stofnframlaga frá ríki og sveitarfélagi sem samþykkt var í annarri úthlutun ársins 2023.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en þar segir að um sé að ræða sex fjölbýlishús þar sem hvert fjölbýli inniheldur fimm almennar leiguíbúðir fyrir tekju og eignaminni einstaklinga og fjölskyldur.

„Íbúðirnar verða af mismunandi stærð, allt frá tveggja herbergja upp í fimm herbergja íbúðir. Áætlað er að fyrstu íbúðir fari í útleigu í júlí 2026.“

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir uppbygginguna mikilvæg skref í átt að húsnæðisöryggi í bænum:

„Við erum afskaplega ánægð að þessar framkvæmdir eru að fara af stað, sérstaklega í ljósi þess að uppbygging Bjargs íbúðafélags tryggir öruggt og hagkvæmt leiguhúsnæði. Við fögnum einnig áherslum Bjargs um skýr markmið um kostnað og gæði íbúða og erum fullviss um að uppbyggingin verði jákvæð fyrir samfélagið okkar.“

„Með þessum nýju íbúðum eykst framboð leiguíbúða í Reykjanesbæ sem reknar eru án hagnaðarsjónarmiða og stuðlar að auknu húsnæðisöryggi og stöðugleika fyrir tekju- og eignaminni heimili, en það er einmitt markmið laga um almennar íbúðir,“ segir í tilkynningu.

Kærðu þríþætta meðgjöf ríkisins til EFTA

Mikið fjaðrafok varð í síðustu viku þegar Viðskiptaráð óskaði eftir því að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hæfi rannsókn á því hvort þríþætt meðgjöf til ríkisins til húsnæðisfélaga brytu gegn ákvæðum EES-samningsis um ólögmæta ríkisaðstoð. Spjótunum er beint að óhagnaðardrifnum húsnæðisfélögum á borð við Bjarg íbúðafélag, sem stofnað var af ASÍ og BSRB, Blæ, húsnæðisfélagi VR og fleirum.

Í kvörtuninni er rakið hvernig stjórnvöld veita umræddum húsnæðisfélögum þríþætta fjárhagslega meðgjöf: úthlutunum lóða á undirverði, beinum fjárframlögum í gegnum svokölluð stofnframlög, og niðurgreiddum fasteignalánum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Samanlagt jafngildir meðgjöfin 46% niðurgreiðslu stofnkostnaði nýrra íbúða samkvæmt áætlun Viðskiptaráðs.

Áformaðar niðurgreiðslur ríkis og sveitarfélaga nema 64 mö. kr., sem jafngildir 21 m.kr. á hverja nýja íbúð, samkvæmt útreikningum Viðskiptaráðs.

Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri, var gáttaður á kæru Viðskiptaráðs, en hann sagði að óhagnaðardrifin húsnæðisfélög hefðu valdið byltingu í húsnæðisöryggi.

Benti Dagur á að leiguverð væri allt að 40 prósent lægra hjá íbúðafélögunum en á almenna markaðnum á höfuðborgarsvæðinu.

„Raunar ættu Viðskiptaráð og allir aðrir að kalla eftir því að önnur sveitarfélög en Reykjavík ættu að girða sig [svo] í brók og úthluta miklu fleiri lóðum til þessara félaga,“ skrifaði Dagur.

Heimild: Visir.is