Home Fréttir Í fréttum Stefna á viðhald í Dölum, Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum í sumar

Stefna á viðhald í Dölum, Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum í sumar

20
0
Síðasta sumar þurfti Vegagerðin að fletta klæðingu af veginum í Miðdölum þar sem hann var í svo lélegu ástandi. Sá kafli var endurbyggður síðasta sumar en vegirnir í kring eru ekki í mikið skárra ástandi. skjáskot – Gréta Sigríður Einarsdóttir

Aukafjárveitingu til Vegagerðarinnar verður varið í viðgerðir á Snæfellsnesi, í Dölum og á sunnanverðum Vestfjörðum í sumar. Svæðisstjóri á Vestursvæði segir ekki veita af en tími til undirbúnings sé lítill.

Gert er ráð fyrir þriggja milljarða aukafjárveitingu til Vegagerðarinnar í frumvarpi ríkisstjórnarinnar að fjáraukalögum. Stór hluti fer á Vesturland og Vestfirði þar sem ástand vega er einna verst.

„Við erum svo sem ekki búin að fá staðfest ennþá upphæðirnar, hvað við erum að fá mikinn hluta af þessari köku,“ segir Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri á Vestursvæði Vegagerðarinnar. Vestursvæði nær yfir Vestfjarðakjálkann og Vesturland að Hvalfjarðargöngum. Ástand vega hefur verið einna verst þar.

Áhersla á Snæfellsnes, Dali og sunnanverða Vestfirði

Pálmi segir ekki veita af að fara í styrkingar í sumar. Í Dölunum voru vegir í svo slæmu ásigkomulagi síðasta vor að fræsa þurfti upp klæðningu sem orðin var hættuleg ökumönnum.

„Ég reikna með að áherslurnar verði í Miðdölunum og úti á Snæfellsnesi,“ segir Pálmi. „Í Reykhólasveitinni líka og á Patreksfjarðarsvæðinu. Það eru svona verstu staðirnir.“

Á Vesturlandi hafa sveitarfélögin bent á að holóttir og blæðandi vegir hamli ekki bara umferðaröryggi heldur líka verðmætasköpun. Pálmi segir standa til að bæta úr því.

„Í síðustu viku hófust blæðingar á Bröttubrekku. Hún hefur verið erfið þannig að við erum að horfa á það mögulega að gera malbika jafnvel eitthvað þar í sumar,“ bætir Pálmi við.

Sumarið að byrja

Helsti verktími Vegagerðarinnar er þegar hafinn. Viðhald vega krefst undirbúnings, ekki síst í stærri endurbyggingarverkefnum. Nú þarf að vinna meiri möl og jarðefni fyrir verkefnin sem bætast við. Efnið sem nýta átti í sumar, miðað við þær fjárheimildir sem lágu fyrir eru nánast tilbúið og þá átti að hefjast handa við að gera efni fyrir næsta sumar.

Þrátt fyrir að tími til undirbúnings sé af skornum skammti segir Pálmi að starfsfólk Vegagerðarinnar hafi búið svo í haginn að þau gætu farið af stað ef fjármagn bærist. Þau séu því nokkuð vel í stakk búin að nýta féð sem best í sumar.

Pálmi segir Vegagerðina hafa fengið þau skilaboð að á næsta ári standi til að auka fjármagn til vegagerðarinnar en óvíst sé hversu mikið það verði.

Heimild: Ruv.is