Home Fréttir Í fréttum Hlaut silfurverðlaun fyrir árangur á sveinsprófi í húsasmíð

Hlaut silfurverðlaun fyrir árangur á sveinsprófi í húsasmíð

42
0
Mynd: Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur

Perla Sigurðardóttir fékk nýverið viðurkenningu, silfurverðlaun, á árlegri nýsveinahátíð, sem Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur heldur til að heiðra þá nema sem skara fram úr í iðnnámi sínu um land allt.

Perla, sem einnig er lærður grafískur hönnuður, lagði stund á húsasmíði í Verkmenntaskóla Austurlands þar sem hún lauk námi á síðasta ári og fékk svo formlega afhent sveinsbréf fyrir skömmu.

Hún segir áhugann hafa kviknað á smíðaverkstæði í Fellabæ þar sem hún eyddi talsverðum tíma en leiddist að kunna ekkert og þurfa sýknt og heilagt að fá aðstoð frá öðrum.

„Þannig að ég dreif mig bara í námið í Verkmenntaskólanum og kláraði það. Þarf því ekki mikið að leita aðstoðar lengur en ég hef ekki gert upp við mig hvort ég held náminu áfram til að fá meistararéttindin. Hins vegar er grafíkvinnan mín á pásu að sinni en það verður að koma í ljós hvort ég tek einhver verkefni því tengdu á næstunni. Eins og er á smíðin hug minn að mestu leyti.“

Perla hefur um hríð starfað hjá byggingafyrirtækinu Austurbygg á Egilsstöðum og sér ekki annað fyrir sér en að starfa þar áfram.

„Frábær vinnustaður, skemmtilegir vinnufélagar og starfið fjölbreytt og lifandi. Ef eitthvað þá er ég að fá meiri og meiri áhuga á smíði hvers kyns eftir því sem ég sinni þessu lengur. Starfið er eiginlega fjölbreyttara og skemmtilegra en ég gerði mér í hugarlund þó áhuginn hafi lengi verið til staðar. Enginn er að gera sama hlutinn aftur og aftur, heldur þvert á móti eru verkin af ýmsum toga. Ég sé mig alveg í þessu fagi áfram út lífið.“

Perla var meðal 29 sveina sem fengu viðurkenningar að þessu sinni. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, afhenti þær.

Heimild: Austurfrett.is