Home Fréttir Í fréttum Leggur til að verktakar tryggi sig fyrir byggingagöllum

Leggur til að verktakar tryggi sig fyrir byggingagöllum

71
0
Mynd: HMS.is
  • Tíður fréttaflutningur af lekamálum, myglu og byggingargöllum bendir til þess að endurskoða þurfi byggingareftirlit
  • Hægt væri að draga úr líkum á byggingargöllum með skilyrðum um að verktakar tryggi sig gagnvart þeim
  • HMS hyggst ráðast í umbætur í málaflokknum á næstunni og mun boða til opinna funda til að ræða þær

Eftirliti með uppbyggingu mannvirkja er ábótavant þessa stundina, að mati HMS. Nýlegar fréttir af ýmiss konar göllum í mannvirkjum og erfiðleikum tjónaþola við að sækja bætur sýna að úrbóta er þörf í málaflokknum og mun því HMS boða til opinna funda á næstunni til að ræða slíkar úrbætur nánar.

Skil­yrði um trygg­ing­ar gætu fylgt bygg­ing­ar­leyf­um

Í frétt Morgunblaðsins föstudaginn 2. maí er rætt við mann sem keypti íbúð í húsi við Löngulínu 2 í Sjálandshverfinu í Garðabæ þar sem upp komu alvarleg vandamál fyrir nokkrum árum vegna frágangs á klæðningu. Kostnaður við viðgerðirnar nam 460 milljónum króna og þurftu íbúarnir að fara dómstólaleiðina til að sækja bætur. Maðurinn segir það hafa verið heppni að eitthvað fékkst upp í tjónið og að þau hafi rekið málið alla leið í Hæstarétt hafi tjónið ekki fengist bætt að fullu.

Tilefni viðtalsins er sambærilegt mál í Trilluvogi 1 þar sem verktakinn fór í þrot en verulegir gallar og lekavandamál hafa komið upp.

Í tilvitnun Morgunblaðsins segir viðmælandinn: „Ég tel að lausnin til að kaupendur hafi einhverja tryggingu fyrir göllum sé að setja þau skilyrði fyrir byggingarleyfi að verktakinn hafi tryggingu frá tryggingafélagi fyrir um 10% af áætluðu söluverði, en í fasteignakaupalögum er talið að verulegur galli teljist 10% eða meira. Ef þessi regla yrði sett myndu fljótlega þurrkast út þeir verktakar sem slík trygging reyndi á þar sem ekkert tryggingafélag vildi tryggja slíka aðila,“ sagði maðurinn sem óskaði engum að þurfa að sækja bætur.

Eft­ir­lit­ið virk­ar ekki í nú­ver­andi mynd

Rætt er við Þórunni Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Mannvirkja og sjálfbærni hjá HMS, í áðurnefndri frétt Morgunblaðsins. Þórunn segir að endurskoða þurfi eftirlit með uppbyggingu húsnæðis. „HMS er með eftirlitið til skoðunar á breiðum grunni því að við sjáum að þetta virkar ekki í núverandi mynd,“ bætir hún við.

Hún segir tímapressu enn fremur hafa haft sitt að segja: „Verkeigandinn, sá sem heldur á verkefninu og hyggst selja íbúðir til almennings, velur og stýrir ferðinni gagnvart þeim fagaðilum sem hann ræður til að vinna fyrir sig. Þarna er oft til staðar óeðlileg pressa og of mikil áhersla á hraða og gróða. Verkeigandinn virðist oft vera stikkfrír ef upp koma gallar. Kaupendur íbúðarhússins þurfa þá að fóta sig í flóknu ferli við að sækja rétt sinn, sem er alls ekki tryggt að takist.

Í samtali við vef HMS segir Þórunn að tímabært sé  að taka þessi mál föstum tökum. Vilji sé hjá stjórnvöldum til að taka byggingareftirlit til róttækrar endurskoðunar í þeim tilgangi að draga úr tjóni almennings, fyrirtækja og opinberra aðila vegna kostnaðarsamra viðgerða og gallamála. Sífelldur fréttaflutningur af lekamálum, myglu og fleiri slíkum vandamálum í nýreistum húsum sýni að núverandi kerfi sé ekki að virka sem skyldi.

HMS mun á næstunni stíga frekari skref í að undirbúa alvöru umbætur í málaflokknum og hyggst boða til opinna funda til að ræða þær nánar.

Heimild: HMS.is