
Fyrsta skóflustungan af nýju 44 herbergja hjúkrunarheimili var tekin í dag í Hveragerði. Húsið verður tæplega þrjú þúsund fermetrar að stærð og mun kosta 2,8 milljarða króna.
Fjölmenni safnaðist saman þar sem nýja hjúkrunarheimilið mun rísa skammt frá núverandi hjúkrunarheimili, sem Grundarheimilin eiga og kallast Ás en Grund hefur rekið Ás frá árinu 1952 og sinnt öldrunarþjónustu í Hveragerði og nágrenni í yfir sjötíu ár. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Birna Sif Atladóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar í Ási, og Grétar Aðalsteinsson, heimilismaður í Ási, tóku skóflustungu að nýja heimilinu.

Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Þannig að það má segja að þetta er tímamótadagur fyrir nýja ríkisstjórn, sem er sem sagt að ráðast í þjóðarátak í byggingu á hjúkrunarheimilum og í öllum aðbúnaði fyrir eldra fólk,“ segir Inga Sæland.
Inga hrósar öllum þeim, sem koma að byggingu nýja heimilisins og hún segir fáir staðir séu betri en Hveragerði fyrir svona þjónustu.
„Ég hef nú stundum látið mig dreyma að jafnvel að flytja í Hveragerði, maður er ekki nema hálf tíma í bæinn,“ segir hún brosandi.

Magnús Hlynur Hreiðarsson
Það eru Grundarheimilin sem byggja hjúkrunarheimilið en í dag eru heimilismenn í Ási 111 talsins. Öll herbergin á nýja hjúkrunarheimilinu verða einbýli með baðherbergjum.
En hver borgar brúsann?
„Við skattgreiðendurnir borgum þetta fyrir rest en ríkið leigir húsið af okkur í 20 ár og þannig náum við að taka lán til að byggja það og reka það í 20 ár,“ segir Gísli Páll Pálsson, formaður stjórnar Grundarheimilanna.

Grétar hefur búið á Ási í rúmlega 20 ár og var einn af þeim sem tóku skóflustungu í dag.
„Það er búið að tala um þetta í 20 ár allavega. Þetta verður glæsilegt heimili, jú, jú,“ segir Grétar.
Heimild: Visir.is