
Eigendur atvinnuhúsnæðis á Bíldshöfða segja Reykjavíkurborg hafa skilið sig eftir í algjörri óvissu og með verðlausar eignir.
Aron Wei Quan, eigandi veitingastaðarins Fönix á Bíldshöfða 12, segir í samtali við Morgunblaðið að þegar einn eigenda í húsinu hugðist selja hafi komið í ljós að lóðarleigusamningur væri útrunninn. Þegar húsfélagið óskaði eftir nýjum samningi við borgina hafi aðeins boðist tímabundinn samningur til 2033. Í honum kemur fram að verið sé að endurskoða skipulag á svæðinu.
Hann segir engin samskipti hafa verið af hálfu borgarinnar við fasteignaeigendur um framtíð svæðisins. Ekkert uppkaupsákvæði sé í samningnum og býður borgin ekki slíkt í framlengdum samningi heldur.
„Við ráðfærðum okkur við lögfræðing og fórum að athuga lóðarleigusamninga á Höfðasvæðinu og þá kom í ljós að allir samningar sem voru gerðir eftir árið 1980 voru með uppkaupsákvæði, sem þýðir að ef borgin vill taka lóðina til baka að loknum leigutíma, þá er fenginn matsmaður og raunvirði húsnæðisins greitt út. En í okkar samningi og mörgum öðrum í kring, til dæmis á Bíldshöfða 14, 18 og 20, eru engin uppkaupsákvæði og borgin vill ekki bjóða okkur slíkt,“ segir Aron.
Í því felst að borgin getur farið fram á það eftir að leigutíma lýkur að lóðarleigutakar skili lóð sinni eins og þeir fengu hana afhenta og fjarlægi mannvirki á eigin kostnað.
„Þá fengum við smá sjokk, því þetta þýðir að fasteignirnar á þessu svæði eru bara verðlausar.“
Hann segir húsfélagið hafa slegið fyrirhuguðum viðhaldsframkvæmdum á frest, enda sé algjör óvissa um framhaldið.
Hann bendir á að fyrirtæki á þessu svæði séu allt þjónustufyrirtæki, verslanir og veitingastaðir.
„Það liggja rosalega mikil verðmæti í bæði fasteignum og fyrirtækjum sem þar eru rekin, þetta er rosalega lífleg gata, eins og allt Höfðasvæðið.“
Dæmi séu um að samið sé við fyrirtæki um að færa sig og fá nýja lóð annars staðar, það gangi ekki fyrir þjónustufyrirtækin á Höfða.
„Það virkar ekki fyrir okkur sem erum með lítil fyrirtæki uppi á Höfða að fá einhverja lóð uppi á Esjumelum, þá er rekstrinum sjálfhætt.“
Heimild: Mbl.is