Stefnt er að því að innan sex ára verði búið að byggja upp Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði og gönguleiðir í kring upp með Búðará. Braggar á svæðinu verða endurbyggðir, ný sýningarskemma reist og núverandi aðalsafn fær annað hlutverk.
Það sem knúði á um vinnuna voru skemmdir sem safnið varð fyrir í hvassviðrinu sem olli tjóni á Reyðarfirði og víðar í september 2022 og var ekki opnað aftur þar fyrr en í fyrra. Fyrir þann tíma var húsnæði safnsins þó farið að láta á sjá. Um tíma var rætt hvort rétt væri að færa safnið niður í miðbæ Reyðarfjarðar og byggja þar upp nýtt safnasvæði en það varð ekki niðurstaðan.
„Það skipti eiginlega sköpum að þarna hafði raunverulega öll sagan átt sér stað á sínum tíma. Þó hin hugmyndin hafi átt stuðningsmenn þá er heldur ekki leiðinlegt að halda safninu á sínum stað með þessu ágæta útsýni yfir bæinn og fjörðinn, burtséð frá safninu sjálfu,“ segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, sem er meðal þeirra sem leitt hafa vinnuna.
Nýjar byggingar
Miklar breytingar verða þó frá núverandi safni. Stærst er líklega bygging nýrrar skemmu, allt að fimm hundruð fermetra stórrar, sem á að hýsa meðal annars bíla í eigu safnsins. Endurbyggja skal frá grunni þá tvo bragga sem eyðilögðust í óveðrinu og þeir braggar taka við safnakostinum sem er innandyra nú.
Síðan á með sérstökum gangi og þjónustubyggingu tengja saman skemmuna nýju og alla braggana svo hægt verður að skoða safnið hvernig sem viðrar utandyra. Núverandi meginsafn breytist í kjölfarið í geymslu. Ekki veitir af því fjöldi safngripa er mun meiri en komist hefur fyrir með góðu móti í húsakosti safnsins.
Útivistarsvæði með Búðará í viðbót
Það er svo verkfræðistofan Efla sem lauk við að vinna hönnun á stórbættu útivistarsvæði beint fyrir ofan stríðsárasafnið sjálft á síðasta ári. Svæðið er í dag vinsælt til útivistar og gönguferða en aðgengi er mjög takmarkað og á að bæta úr því þegar fjármagn fæst til verksins.
Lykilatriðið er góður göngustígur langleiðina að Búðarárfossi sjálfum og komið verður fyrir sérstökum útsýnispalli þar sem hvað víðsýnast er. Þjónustu- og salernissvæði yrði svo samnýtt með safninu og hugsanlegt er að gamall vatnstankur sem hátt stendur á svæðinu verði á einhvern hátt nýttur líka fólki til hægðarauka.
Heimild: Austurfrett.is