Home Fréttir Í fréttum Um 345 milljónir kostar að einangra og kynda Fjarðabyggðahöllina

Um 345 milljónir kostar að einangra og kynda Fjarðabyggðahöllina

50
0
Mynd: Austurfrett.is

Allra ódýrasta leiðin til að einangra þak Fjarðabyggðahallarinnar og kynda húsið í kjölfarið mun kosta Fjarðabyggð kringum 345 milljónir króna samkvæmt úttekt verkfræðistofunnar COWI.

Bæjarráð sveitarfélagsins samþykkti í dag að hafinn verði undirbúningur við einangrun þaks hallarinnar sem hefur látið mjög á sjá sökum ryðs sem ollið hefur leka inn í húsið síðustu árin. Hafa lausnir þessa verið lengi til skoðunar hjá sveitarfélaginu en kostnaðartölur setið í mönnum.

Að klæða þakið og einangra á hefðbundinn hátt hefði kostað að lágmarki kringum 400 milljónir króna fyrir utan kyndingu en slíkir fjármunir liggja ekki á lausu enda fjölmörg viðhaldsverkefni sem brýnt er að sinna á öðrum eignum Fjarðabyggðar.

Spara má því dágóða upphæð með því að notast við nýlega aðferð sem felst í að úðakvoðueinangra þakið með yfirborðsefni yfir núverandi þakstál og það verk skal hefja á þessu ári.

Jafnframt skal koma fyrir snjóstoppurum við þakbrúnir og setja upp nýja lýsingu í höllina. Á næsta ári verður svo hafist handa við að loka loftunarristum á hliðum hússins með stálklæddum steinullareiningum, endurnýja loftræstingar og koma upp hitunarkerfi.

Heimild: Austurfrett.is