Rekstrarhagnaður fasteignafélagsins Reita fyrir matsbreytingu nam 10.972 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 822 milljónir króna eða 8,1% milli ára. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri félagsins.
Þar segir að árangur á öllum þáttum kjarnastarfseminnar skilaði sér í góðum rekstrarhagnaði félagsins á árinu. Aukningu tekna milli ára má rekja til verðlagshreyfinga og endurnýjun leigusamninga en nýjar eignir skiluðu um 200 milljóna króna aukning.
Grunnmarkmið nýrrar vaxtarstefnu félagsins sem mörkuð var á síðasta ári er kröftugur og arðbær vöxtur þannig að eignir félagsins verði 300 ma.kr. í lok tímabilsins.
Í uppgjörinu segir að lagt hafi verið upp með markviss verkefni í takt við vaxtarstefnuna og góður árangur náðist á öllum þremur sviðum kjarnastarfsemi félagsins; þróun, kaupum og uppbyggingu. Fjárfest var kröftuglega í nýjum verkefnum á árinu, fyrir um 18,1 milljarða króna sem er talsvert umfram áætlun félagsins um 11 milljarða króna fjárfestingu. Þar af var 9,6 milljörðum króna varið í nýjar eignir og rúmir 8,5 milljarðar króna fjárfest í endurbótum á fasteignum félagsins.
Leggja til 1,5 milljarða í arð
Félagið gerir ráð fyrir að rekstrartekjur ársins í ár verði 17.700 – 18.000 milljónir króna sem er aukning um 8-9% og að rekstrarhagnaður ársins nemi 11.750 – 12.050 milljón ir króna og aukist um 7-10%.
Gert er ráð fyrir um 4% hækkun verðlags milli ára og að nýtingarhlutfall verði sambærilegt við nýtingu ársins 2024. Kostnaðarhlutföll eru áætluð svipuð og á fyrra ári, sem skilar nær óbreyttu rekstrarhagnaðarhlutfalli fyrir árið í heild.
Stjórn leggur til við aðalfund félagsins að arður verði greiddur til hluthafa að fjárhæð 2,20 kr. fyrir hverja krónu nafnverðs útistandandi hlutafjár í félaginu vegna rekstrarársins 2024 eða um 1.533 milljónir króna. Jafnframt er lagt til að arður að fjárhæð 1,50 fyrir hverja krónu nafnverðs útistandandi hlutafjár verði greiddur til hluthafa í lok september. Nánari upplýsingar verða birtar í tillögu stjórnar til aðalfundar.
Haft er eftir Guðna Aðalsteinssyni, forstjóra Reita í uppgjöri félagsins að eftirtektarverður árangur félagsins á árinu sem leið sé afrakstur góðrar samvinnu og metnaðarfullrar vaxtarstefnu sem var leiðarljós í því sem félagið tók sér fyrir hendur.
„Það er ánægjulegt að sjá hversu miklum framgangi við náðum strax á fyrsta ári nýrrar stefnu en sá árangur er til komin vegna öflugrar samvinnu allra hagaðila félagsins og vil ég þakka stjórn, hluthöfum, starfsfólki, viðskiptavinum og samstarfsaðilum fyrir farsælt samstarf. Framgangur ársins gefur okkur meðbyr á nýju ár þar sem vaxtarstefna félagsins er leiðandi stef í allri ákvarðanatöku og verkefnum.
Auk skýrra markmiða er verðugur tilgangur það sem hvetur okkur áfram en við setjum stefnuna á að vera leiðandi afl í uppbyggingu og rekstri fasteigna. Við fjárfestum í nýjum eignaflokkum og þróunarverkefnum af krafti og leggjum þannig okkar framlag á vogarskálarnar til þess mæta eftirspurn eftir fasteignum og innviðum, samfélaginu til hagsbóta,“ er haft eftir Guðna.
Heimild: Mbl.is