Home Fréttir Í fréttum Klára skipulag til að reyna að liðka fyrir nýjum íbúðum

Klára skipulag til að reyna að liðka fyrir nýjum íbúðum

33
0
Mynd: Austurfrett.is

Vopnafjarðarhreppur hefur auglýst tillögu að deiliskipulagi fyrir Skálaneshverfi, íbúabyggðina syðst í kauptúninu. Þar eru tillögur að nýtingu sjö lóða fyrir íbúabyggð. Sveitarstjóri segir markmið að skapa hvata til byggingar íbúðarhúsnæðis.

Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir Skálaneshverfið í dag. Í skipulagstillögunni er gert ráð fyrir 12-14 nýjum íbúðum á sjö óbyggðum lóðum. Fjórar lóðanna eru ætlaðar undir einbýlishús, tvær undir parhús og ein undir fjölbýli. Að auki er leyfilegt að útbúa aukaíbúðir í einbýlis- og parhúsum.

„Við kláruðum nýverið deiliskipulag Holtahverfis og þar voru sjö lóðir af mismunandi stærðum. Þegar skipulag Skálaneshverfis hefur verið staðfest verðum við með samtals lóðir fyrir um 30 íbúðir,“ segir Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps.

Eftirspurn eftir minni íbúðum

Í húsnæðisáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2025 segir að ekki sé skortur á íbúðum í sveitarfélaginu í dag. Samkvæmt miðspá er gert ráð fyrir þörf á fimm nýjum íbúðum næstu tíu árin enda hefur íbúum ekki fjölgað þar síðustu ár. Þó eru að verða breytingar í atvinnulífi með umsvifum Six Rivers auk þess sem hugmyndir um stórskipahöfn í Finnafirði lifa enn.

Hins vegar hefur í talsverðan tíma verið eftirspurn eftir minni íbúðum á Vopnafirði. Samkvæmt húsnæðisáætluninni eru sex einstaklingar á biðlista eftir leiguíbúðum fyrir eldri borgara. „Það vantar íbúðir fyrir eldra fólk sem vill minnka við sig og eins ungt fólk sem vill flytja til staðarins. Við tókum frá fé í fjárhagsáætlun hreppsins til að skoða íbúðir fyrir eldra fólk,“ segir Valdimar.

Einn hvetur annan

Hann segir verkefnið nú vera að fá verktaka til samstarf um íbúðabyggingu. Hann segir að þegar einn fari af stað fylgi oft fleiri í kjölfarið og nefnir dæmi frá Blönduósi þar sem hann var áður sveitarstjóri. „Það hafði ekki verið byggt þar í 10 ár þegar fyrsti verktakinn fór af stað. Síðan eru komnar um 30 íbúðir á 5-6 árum.“

Valdimar segir að ýmsar hugmyndir hafi verið viðraðar að undanförnu. „Við höfum rætt við verktaka, meðal annars um hvernig húsnæði passi inn í stuðningskerfi ríkisins. Við höfum líka rætt við Brim um að taka þátt í verkefni með okkur, félagið á þegar nokkur hús í bænum. Hreppurinn gæti komið að uppbyggingunni með að leigja eða jafnvel kaupa einhverjar íbúðir.“

Flest núverandi húsa á svæðinu eru byggð frá 1972-1980. Þar er þó einnig raðhús sem byggt var árið 2021 með stofnframlagi frá ríkinu.