
Á undanförnum árum hefur verið hávær umræða um að auka þurfi fjárfestingu í innviðum hér á landi.
Skýrslur Félags ráðgjafarverkfræðinga og Samtaka iðnaðarins varpa ljósi á að víða hefur hvorki uppbyggingu né viðhaldi verið sinnt sem skyldi. Í þeirri nýjustu slagar innviðaskuldin upp í 700 milljarða króna. Konráð Guðjónsson hagfræðingur ritaði pistil á vefsíðu sína á dögunum.
Í pistlinum veltir Konráð því upp hvort það gleymist í umræðunni um uppbyggingu innviða hversu fá við Íslendingar erum. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að setja þurfi fram raunhæfar væntingar.
Spurður hvaða væntingar hann telji raunhæfar segir Konráð að það fari sjálfsagt eftir hver sé spurður. Við mat á hvað sé raunhæft segir Konráð að horfa verði til þess að Ísland er fámennt og strjálbýlt land.
„Það sem virðist hafa gerst er að kröfurnar til samgangna eru meiri en hafa verið áður og í því samhengi má segja að ágætt sé að stíga til baka og líta á hvað hefur verið gert í þessum efnum,“ segir Konráð og bætir við að gera hefði mátt meira síðustu ár.
„Það er klárlega hægt að gera meira, staða ríkissjóðs og áætlanir ríkisstjórnarinnar gefa þó ekki svigrúm til þess nema eitthvað breytist,“ segir Konráð.
Samanburður við Færeyjar ósanngjarn
Spurður hvort hann hafi lagt tölulegt mat á hversu mikil vanfjárfestingin í innviðum hér á landi sé segir Konráð að það geti verið erfitt að átta sig á því.
„Nákvæmt tölulegt mat er svolítið erfiður samkvæmisleikur en það er nokkuð augljóst að á árunum 2009-2017 var ekki nógu mikið gert.
„Síðan þá hefur verið ágætis gangur en við erum enn að vinna upp vanfjárfestinguna. Það þarf alltaf að hafa í huga hvar sé hagkvæmt að byggja upp. Við viljum hafa ástandið eins og er í Þýskalandi eða öðrum stórum ríkjum en það eru alltaf takmarkanir og það þarf að huga að forgangsröðun,“ segir Konráð.
Konráð segir að slíkt hafi verið skoðað og mikið rætt. Hann bætir jafnframt á að lög um svokölluð PPP-verkefni (samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila) kalli á endurskoðun.
„Lífeyrissjóðir fjárfesta í innviðum um allan heim. Ekki hefur enn tekist að virkja fjármagn lífeyrissjóða til að gera alvöruátak í uppbyggingu hagkvæmra innviða með samvinnuverkefnum einkaaðila og opinberra aðila, sem er einnig nefnt PPP-verkefni hér á landi. Það þýðir þó ekki að slíkt sé ómögulegt og augljóst að endanlegir eigendur lífeyrissjóðanna eiga mikið undir, þ.e. að innviðir séu góðir í dag sem og í ellinni,“ segir Konráð.
Í pistli sínum bendir Konráð á að hvergi í heiminum sé jafn stórt vegakerfi í samhengi við íbúafjölda og hér á landi. Hann segir sérstaklega áhugavert að bera Ísland saman við Færeyjar og bendir á að síðustu ár hafa Íslendingar dáðst að framkvæmdagleði Færeyinga í jarðgangagerð og með réttu.
„Það er þó e.t.v. ekki alveg sanngjarn samanburður þegar vegakerfi hinna litlu Færeyja er eðlilega mun minna enda byggðin tífalt þéttari en á Íslandi. Færeyjar eru auk þess með svipaðar þjóðartekjur á mann,“ segir Konráð.
Greinin birtist í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.
Heimild: Mbl.is