Vinna við meðferðarkjarnann gengur vel og hefur lokafrágangur á útveggjaklæðningu verið í fullum gangi síðustu vikur og nú er búið að setja á húsið allar útveggjaeiningar.
Vinna við þensluskil, þakkanta og hurðauppsetningar eru nú í fullum gangi og verður áfram næstu vikur. Innivinna á legudeildum, á fimmtu og sjöttu hæð, er að hefjast og byrjar hún á flotun gólfa og uppsetningu innveggja. Samhliða er unnið að frágangi í kjallara, þar sem múrverk og málningarvinna eru hafin á nokkrum svæðum.
„Þakvinna er í fullum gangi, þar sem m.a. er unnið að tengingu regnvatnslagna, sem styður við innivinnu á neðri hæðum og skapar betri skilyrði fyrir áframhaldandi innanhússfrágang.
Stefnt er að þvi að byggingin verði orðin vatnsheld í mars. Á næstu misserum mun áherslan færast í auknum mæli á innanhússvinnu, þar sem unnið verður við uppsetningu tæknibúnaðar og í fullnaðarfrágangi í ákveðnum deildum. Framkvæmdir halda áfram samkvæmt áætlun og stefnt er að stórum áföngum á næstu mánuðum, “segir Árni Kristjánsson, staðarverkfræðingur NLSH.
Heimild: NLSH.is