Áætlað er að uppsöfnuð viðhaldsskuld í innviðakerfinu sé um 680 milljarðar króna. Samtök iðnaðarðins segja þörf er á tafarlausum aðgerðum í vega- og fráveitukerfum.
Uppsöfnuð viðhaldsþörf í vegakerfinu er allt að þrjú hundruð milljarðar króna en nærri sjö hundruð milljarðar í innviðakerfinu öllu. Verst förnu innviðirnir eru vegakerfi og fráveitukerfi.
Staðan versnað
Samtök iðnaðarins kynntu í hádeginu nýja skýrslu um ástand og framtíðarhofur innviða á Íslandi. Markmiðið með henni er að lýsa stöðu helstu innviða og hvað þurfi til að tryggja gæði þessara meginstoða samfélagsins. Með innviðum er átt við vegakerfið, flugvelli, hafnir, raforkuflutningskerfi og margt fleira.
„Staðan er verri heldur en síðast þegar við gáfum út sambærilega skýrslu fyrir fjórum árum og segir þá sögu að mikil innviðaskuld hún dregur úr lífskjörum landsmanna,“ segir Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Endurstofnvirði innviða, það er að segja hvað myndi kosta að byggja þá upp frá grunni, hafi lækkað. Það þýði að verðmæti þeirra sé minna en áður vegna ástands. Það sé einn mælikvarði á stöðuna.
Nærri 700 milljarða vantar
„Við sjáum það líka að innviðaskuldir í það heila, uppsöfnuð við haldsskuld, hún nemur núna tæplega 700 milljörðum, 680 milljörðum sem er hærra hlutfall af landsframleiðslu heldur en síðast, þannig að það er annar mælikvarði.“
Í þriðja lagi megi nefna að þegar horft er áratug fram í tímann séu horfurnar núna dekkri en fyrir fjórum árum. Þetta verra ástand megi að sögn Sigurðar alfarið skrifa á viðhaldsleysi.
![](http://byggingar.is/wp-content/uploads/2025/02/12.02.2025-Hundrud-milljarda-krona-vantar-i-uppbyggingu-innvida-landsins-a.jpg)
Á síðasta ári hafi Vegagerðin talið að 18 milljarða króna þyrfti til að halda í horfinu, en hún hafi fengið 13 milljarða. Þetta sé eitt dæmi, en ástand vegkerfisins, þar sem uppsöfnuð viðhaldsskuld á þjóðvegum og sveitarfélagavegum sé á bilinu 270 til 290 milljarðar króna og fráveitukerfin eru þeir innviðir þar sem ástandið er verst. Þetta slæma ástand bitni á öryggi fólks og verðmætasköpun og fleira. Þá megi nefna fleira eins og raforkuflutningskerfið. Skýringa á ástandinu megi finna í pólitíkinni.
![](http://byggingar.is/wp-content/uploads/2025/02/12.02.2025-Hundrud-milljarda-krona-vantar-i-uppbyggingu-innvida-landsins-b.jpg)
Pólitísk ákvörðun
„Svona í grunninn snýst þetta um forgangsröðun. Það er ákveðið að nota fjármunina frekar í önnur verkefni heldur en það að ýta undir verðmætasköpun og tryggja öryggi til dæmis vegfarenda eða grundvöll fyrir samfélagið. Þannig að það er auðvitað bara pólitískt mat hverju sinni hvernig fjármunum er ráðstafað. Þetta hefur verið niðurstaðan undanfarin ár.“
Heimild: Ruv.is