Home Fréttir Í fréttum Viðgerðir á Grindavíkurbæ á áætlun

Viðgerðir á Grindavíkurbæ á áætlun

16
0
Loftmynd af kirkjunni í Grindavík og því sem gekk á þar fyrir framan. Ljósmyndir: Jón Steinar Sæmundsson

Sprunguviðgerðir á góðri leið. Reynsla komin á viðgerðir.

<>

„Ég á von á að öllum minni viðgerðum í öðrum og þriðja forgangi í fyrsta fasa ljúki í vetur, þá eru stærri svæði eftir auk fjórða forgangs sem var í minnstum forgangi.

Það á líka eftir að útvega fjármögnun fyrir hluta framkvæmdanna en ég á ekki von á öðru en það gangi vel,“ segir Sigurður Karlsson, umsjónarmaður fasteigna Grindavíkurbæjar, en fyrir utan það hefðbunda starf fyrir Grindavíkurbæ er Sigurður í framkvæmdateymi sem er með það vandasama verkefni að gera við sprungur sem mynduðust í jarðhræringunum og þ.a.l. að gera bæinn öruggan.

Séð yfir gamla aðalvöll knattspyrnudeildar Grindavíkur.

Eftir að Grindavíkurnefndin svokallaða komst á laggirnar hófst vinna við að gera við sprungurnar og var viðgerðunum skipt upp í fjóra forganga.

„Þetta verkefni er samstarfsverkefni Grindavíkurnefndarinnar, Grindavíkurbæjar og Vegagerðarinnar og í þessu framkvæmdateymi sem heldur utan um verkefnið, eru ásamt mér, Elísabet Bjarnadóttir sem vinnur á skipulagssviði Grindavíkurbæjar, tveir jarðfræðingar frá Eflu, þeir Jón Haukur Steingrímsson og Einar Sindri Ólafsson, Valgarður Guðmundsson frá Vegagerðinni, Gunnar Einarsson frá Grindavíkurnefndinni og teymisstjóri er Sindri Þrastarson frá Verkfræðistofu Suðurnesja.

Við fundum alla miðvikudaga og annan hvern miðvikudag hittum við verktakana og förum yfir hvort einhver frávik séu og hvernig viðkomandi verkefni gangi.

Síðasta sumar var verkefnunum forgangsraðað í fjóra flokka og framkvæmdir hófust í ágúst, þegar viðkomandi eldgosi var lokið. Þá voru helstu umferðargötur lagaðar svo hægt yrði að koma umferðarflæði í gegnum bæinn í gang, m.a. til að gera flóttaleiðir greiðar út úr bænum þegar kæmi til rýmingar.

Í þessum fyrsta forgangsflokki var líka gert við innviði sem nauðsynlega þurfti að laga. Þessi fyrsti flokkur stóðst nánast upp á dag tímalega séð og við erum í öðrum og þriðja flokki núna og verðum í þeim í vetur, eftir því hvernig viðrar og svo á líka eftir að klára fjármögnun á öllu verkinu.

Það var ákveðið að ráðast í verkefni samhliða sem voru ekki eins aðkallandi því það svaraði ekki kostnaði að girða þau svæði af, það var jafn dýrt að ráðast strax í þær framkvæmdir. Ég tek sem dæmi Víkurtúnið og Hestatúnið fyrir neðan gömlu kirkjuna, þetta eru stór svæði og dýrt hefði verið að girða þau af og þess vegna ákveðið að laga þau bara strax.

Ég á ekki von á öðru en við klárum þessi minni svæði í forgangi tvö og þrjú í vetur en svo eru stærri svæði eftir, t.d. á gamla aðalvellinum á knattspyrnusvæðinu. Eitt helsta verkefni Grindavíkurnefndarinnar er að redda fjármögnun og eðlilega fór það í bið í kjölfar kosninganna og nú er ný ríkisstjórn tekin við og ég á ekki von á öðru en fjárveiting fáist og þá er bara að halda áfram með verkefnið, það er mjög mikilvægt að engin biðstaða myndist.“

Sigurður Karlsson, umsjónarmaður fasteigna Grindavíkurbæjar.

Engar aflaganir innanbæjar síðan í janúar í fyrra
Sigurður á ekki von á öðru en yfirvöld vilji halda áfram með það verkefni að laga Grindavíkurbæ úr því sem komið er.

„Það hafa ekki orðið neinar teljandi breytingar á sprungum síðan 14. janúar í fyrra en þá varð seinni sigdalurinn til. Þá fór austari hluti bæjarins frekar illa, þá stækkaði sprungan til muna sem fer í gegnum Hópið [knattspyrnuhús Grindavíkur] og Hópsskóla og hverfið þar sem iðnaðarhúsin austan viðlagasjóðsbryggjunnar eru fór sömuleiðis illa. Síðan þá höfum við ekki merkt neinar teljandi breytingar og að því gefnu að náttúran gefi grið og kvikuhlaup fari ekki aftur nálægt Grindavík, tel ég óhætt að fara í þessar viðgerðir. Allar þær viðgerðir á sprungum sem hefur verið ráðist í, hafa haldið og það er auðvitað mjög jákvætt.

Þau stóru svæði sem eru eftir er t.d. gamli aðalvöllur knattspyrnunnar, þar leikur grunur á ansi stórri sprungu en þess bera að geta að öll svæði eru kyrfilega girt af en það þýðir ekki að viðkomandi svæði sé öruggt, ég er ansi smeykur um að ég sem gutti hefði verið ansi forvitinn og hefði klifrað yfir girðinguna.

Þess vegna er mjög mikilvægt að gera við allar þessar sprungur, fyrr verður Grindavík ekki metinn sem öruggur staður fyrir börn að búa á en bærinn er öruggur utan girðinga. Það er alls staðar hægt að koma sér í hættu en það er mikill munur á að treysta fullorðnu fólki eða börnum.

Nú er mikilvægt að halda viðgerðunum áfram og gera bæinn öruggan því við viljum ekki lenda í því að þegar hættan er talin liðin hjá og fólki gefinn kostur á að flytja til baka, að þá eigi eftir að laga bæinn. Við erum á áætlun með þetta og ég á ekki von á öðru en öllum minni viðgerðum í öðrum og þriðja forgangi ljúki einhvern tíma í vetur.

Jarðvegsskönnunin sannaði gildi sitt, á nokkrum stöðum kom í ljós að talsverð sprunga hafði myndast, t.d. á Mánagötu og í Mánagerði. Í flestum tilvikum var ekki neitt en þú vilt ekki taka neina sénsa í svona málum. Sprungusveimurinn [10-30 metra svæði í kringum sprungu] er alls staðar kannaður og ef allt er í góðu eins og var sem betur fer í flestum tilvikum, tekur viðkomandi aðgerð lítinn tíma en ef stærri sprungur koma í ljós tekur eðlilega meiri tíma að laga þær,“ segir Sigurður.

Loftmynd tekin neðarlega á Víkurbrautinni en húsin hægra megin ofan við Kvennó sem er annað húsið vinstra megin á myndinni, eru öll ónýt.

Gamli skólinn
Sigurður fór yfir stöðuna á gamla skólanum við Ásabraut.

„Skólinn skemmdist nokkuð 10. nóvember, vesturálman klessti þá á hinn hlutann en það var vitað af sprungunni þar undir og í hönnuninni var gert ráð fyrir að álmurnar myndu færast í sundur en þær fóru saman. Við það skekktist burðarvirkið og sprakk nokkuð illa en þó ekki þannig að ekki sé hægt að gera við og sú viðgerð er hafin.

Allur innanhúss frágangur er eftir en hann á ekki að þurfa taka svo langan tíma. Vinna var hafin árið 2023 við að skipta um klæðningu en klára átti það verkefni á þremur árum, við ætluðum að nýta sumargluggann í það verkefni. Fyrsta hluta var nánast lokið þegar 10. nóvember gekk í garð en við gátum svo klárað það síðasta haust.

Við erum byrjaðir á öðrum áfanga og hann helst í hendur við sjálfa viðgerðina í kjölfar náttúruhamfaranna. Þetta er í góðum farvegi myndi ég segja, þegar veður er óhagstætt er farið inn og unnið þar og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að sjálf skólabyggingin verði tilbúin næsta haust og tala nú ekki um ef gefið yrði út að skólahald eigi að hefjast á ákveðnum tímapunkti, þá er settur meiri kraftur í verkið.

En hvort skólahald geti hafist næsta haust veltur ekki bara á ástandi skólabyggingarinnar, bærinn þarf að vera orðinn öruggur til búsetu fyrir börn og mér sýnist að sprunguviðgerðir verði ekki búnar fyrir næsta haust. Mér finnst raunhæfara að miða við næstu áramót en ef ákvörðun yrði tekin af yfirvöldum um að skólahald eigi að hefjast, þá yrði hugsanlega hægt að setja enn meiri kraft í sprunguviðgerðirnar og þeim lokið en það taka aðrir ákvörðun um það en ég.

Í mínum huga er bara mjög mikilvægt að halda áfram með verkefnið og ekki láta myndast einhvern biðtíma því það tekur alltaf tíma að koma verkefni aftur af stað. Höldum dampi og sjáum hvert það leiðir okkur.“

Framtíð Grindavíkur
Sigurður er bjartsýnn á framtíð Grindavíkur en segir þetta vera tímafrekt verkefni og aðeins sé búið að gera við um fjórðung eða þriðjung.

„Það eru stór verkefni eftir og þau munu taka tíma. Ég er auðvitað með önnur verkefni á minni könnu, ég er bæði veitustjóri og umsjónarmaður fasteigna en líklega fer mestur minn tími í utanumhald á sprunguviðgerðunum í samvinnu við framkvæmdateymið. Það fer alltaf talsverður tími í að skipuleggja næstu viðgerð þegar önnur er búin svo ekki myndist nein biðstaða.

Grindvíkingar spá eðlilega í hvenær eðlilegt líf geti hafist á ný í bænum og það hefur auðvitað verið mikil umræða um ástand íbúðarhúsnæðis í Grindavík en ég er ekki með neina aðkomu að því.

Ég veit að Þórkatla hefur bætt við pípurum til að sinna eftirliti með húsunum en þetta er meira en að segja það, eitt rafmagnsleysi í frosthörku eins og núna getur valdið skemmdum eða eyðilagt lagnir á örskömmum tíma. Ég benti á þetta þegar fyrsta eldgosið kom í desember 2023, það byrjaði strax landris svo ég sá fyrir mér að þetta ástand gæti staðið yfir í einhver ár.

Svo þegar heita vatnið fór af í eldgosinu í janúar í fyrra, lagði ég til að fjargæslubúnaður yrði keyptur í hvert hús, búnaður sem fylgist með raka- og hitastigi viðkomandi húss. Þetta hefði verið dýr framkvæmd en miklu ódýrari en sú leið sem farin er í dag með svo og svo mörgum pípurum og hefði að mínu mati líka skilað betri árangri. Hús sem er með grænan lit þarf ekki að skoða, þar er allt í stakasta lagi en þar sem rautt kemur þarf að grípa inn í.

Batterýið arkitektar kynntu í lok seinasta árs hugmyndir um hvað eigi að gera við þau hús og byggingar sem eru ónýt, t.d. Hópið. Íbúum verður gefinn kostur á að tjá sig um þessar hugmyndir svo það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir og eins þarf að skoða t.d. burðarþol viðkomandi húsnæðis, hvort það geti tekið á sig vind, snjó og jafnvel jarðskjálfta. Ef húsnæðið er metið öruggt til að vera inni í því, getur verið að það verði látið standa til framtíðar svo hægt sé að sýna ferðafólki hvað gekk á.

Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn á framtíð Grindavíkur en hvenær tónn yfirvalda breytist varðandi hversu óhætt er að búa í bænum, held ég að verði ekki fyrr en landris hættir.

Hvert stjórnvald þarf að horfa á hlutina með sínum gleraugum, almannavarnir og lögreglustjórinn á Suðurnesjum eiga að gæta að öryggi fólks og þess vegna ber þeim að fara að öllu með gát. Veðurstofan á að segja frá mögulegri hættu o.s.frv. Svo er það æðra stjórnvald sem tekur endanlega ákvörðun, eins og með covid á sínum tíma, þá lét þríeykið stjórnvöld fá minnisblað með sínum tillögum og það var stjórnvalda að taka ákvörðun út frá því og hvað hentaði best heildarhagsmunum í þjóðfélaginu.

Ég held að það sami gildi í Grindavík, endanlegt vald ætti að vera ríkisstjórnarinnar en hvort farið verði alfarið eftir því sem almannavarnir og lögreglustjórinn leggja til, verður bara að koma í ljós. Við getum ekkert annað gert en haldið áfram og ég mun sinna minni vinnu eins vel og ég get og hlakka mikið til þegar við getum gefið út að búið sé að laga allar sprungur og bærinn því orðinn öruggur til búsetu. Þá erum við alla vega búin að gera okkar og annarra að taka aðrar ákvarðanir,“ sagði Sigurður að lokum.

Heimild: Vf.is