Home Fréttir Í fréttum Gamla ríkið falt og milljónir fylgja

Gamla ríkið falt og milljónir fylgja

34
0
Húsið hefur gengið undir hinum ýmsu nöfnum í gegnum tíðina. Ja.is

Sveitarfélagið Múlaþing hyggst selja Gamla ríkið að Hafnargötu 11 á Seyðisfirði. Húsinu, sem er yfir hundrað ára gamalt, fylgja friðaðar innréttingar eldri en húsið sjálft.

<>

Gamla ríkið stendur við smábátahöfnina í Seyðisfirði og hefur staðið þar síðan árið 1918. Húsið vakti athygli á landsvísu þegar ÁTVR hófst handa við að rífa innréttingarnar niður og flytja suður. Hópur Seyðfirðinga stöðvaði niðurrif innréttinganna sem njóta verndar samkvæmt húsafriðunarlögum.

Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþings, segir að hugmyndin sé að húsið verði flutt til á lóðinni og endurbyggt en í dag stendur það þétt upp við umferðargötu þannig erfitt er að nýta aðkomuna.

Kaupandi hússins mun njóta greiðsla fyrir færslu og endurgerð hússins í samræmi við fjármagn sem fjallað er um í samningi Seyðisfjarðarkaupstaðar, ríkissjóðs og Minjaverndar og Múlaþing og Minjavernd munu fara með eftirlit með framkvæmdunum.

Samkvæmt umfjöllun Austurfréttar frá því þegar ríkið afhenti húsið Seyðisfjarðarkaupstað var það byggt árið 1918 undir verslunarrekstur en komst í eigu ríkisins 1959 þegar ÁTVR flutti þangað inn. Árið 2004 flutti svo ríkið í annað húsnæði og hlaut húsið þá nafnbótina gamla ríkið. Ytra byrði hússins var svo friðað árið 2009 ásamt innréttingunum. Þær komu úr verslun Konráðs Hjálmarssonar á Mjóafirði sem byggð var skömmu fyrir aldamótin 1900. Þær eru taldar einar elstu verslunarinnréttingar landsins.

Heimild: Visir.is