Íbúakosningu í Ölfusi um hvort Heidelberg fái að byggja mölunarverksmiðju í Þorlákshöfn lauk formlega klukkan fjögur síðdegis. Íbúakosning hófst þann 25. nóvember en íbúum gafst þá einnig kostur á að greiða atkvæði um málið samhliða kosningum til Alþingis 30. nóvember.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að kjörsókn hafi verið mjög góð í íbúakosningunni, einhvers staðar á bilinu 65-70%. „Sem þykir mjög góð kjörsókn í íbúakosningum og það skiptir okkur mjög miklu. Núna hefur kjörnefnd komið saman og lokið kosningum formlega og eru bara að hefjast handa við að telja, fyrir opnum dyrum.“
Og hvenær getið þið vænst þess að fá niðurstöðu í málið?
„Ég hugsa að ef ekkert óvænt kemur upp á þá gæti það verið einhvern tímann á milli sjö og átta. Það verður allavega fyrir klukkan níu í kvöld sem við ættum að geta upplýst um niðurstöðu kosninga,“ segir Elliði en á heimasíðu Ölfuss verður íbúum tilkynnt um niðurstöðuna.
„Og mikið hlakka ég til af því að þá veit ég hver minn vilji verður. Hann verður sá hinn sami og íbúa,“ segir Elliði.
Hefurðu einhverja tilfinningu hvernig þetta fer?
„Nei, í raun og veru hef ég ekki neina sterka tilfinningu fyrir því. Mestu skiptir fyrir mig er að kosningarnar fóru vel fram og voru vel sóttar af íbúum. Þeir hafa látið að sér kveða í þessari framkvæmd með því að mæta á kjörstað og umræðan hefur verið, hér heima fyrir, mjög hófstillt og íbúar sýnt mikinn þroska í allri framkomu og það var það sem skipti mann meiru heldur en akkúrat hver niðurstaðan verður, því eins og ég segi að ég sem bæjarstjóri mun alltaf gera vilja bæjarbúa að mínum vilja.“
Elliði segir að mál sem þessi henti vel til íbúakosningu.
„Ég held þetta sé mjög góð leið og einmitt í svona stórum málum sem ekki eru á neinn máta pólitísk, þetta er stórt hagsmunamál fyrir sveitarfélagið, þetta eru annars vegar umhverfisáhrif og auðvitað verður fólk vart við, ef af þessu verður, framkvæmdina og starfsemina á sama tíma eru þetta mörg störf og mörg tækifæri sem þessu fylgja og það er langbest að íbúar hafi beina og milliliðalausa aðkomu að ákvörðunum sem þessum og okkur finnst mjög vel hafa tekist til hvað þetta varðar og erum mjög stolt af íbúum. “
Heimild: Visir.is