Frá og með deginum í dag verður sánuklefanum í Vesturbæjarlaug lokað. Hann verður í kjölfarið rifinn, ásamt öðrum klefa sem hefur verið lokaður síðan í haust.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu Vesturbæjarlaugar. Þar segir að verið sé að hefja niðurrif á sánaklefunum tveimur sem laugargestir hafa getað nýtt sér. Það sé fyrsti liður í endurbótum á elsta hluta mannvirkisins.
„Endanleg hönnun á því sem kemur í staðinn liggur ekki fyrir en þegar hún er tilbúin verður hún kynnt fyrir gestum,“ segir í færslunni, þar sem gestir eru beðnir velvirðingar á óþægindum og raski sem niðurrifið kunni að hafa í för með sér.
Á Facebook-síðu laugarinnar eru gestir hvattir til að mæta í einhverja af sundlaugum Reykjavíkur og svara könnun um viðhorf til gufubaða. Þar er allt undir; blautgufur, þurrgufur og infrarauðar gufur.
Afnám kynjaskiptingar umdeilt
Snemma í október var fjallað um gremju fastagesta laugarinnar vegna þess að kynjaskipting í sáunuklefum hefði verið afnumin. Forstöðumaður laugarinnar sagði þó lítið annað hafa verið í stöðunni, þar sem karlasánan hafi verið orðin fúin og ógeðsleg. Hún hefur því verið lokuð að undanförnu og öllum gestum heimilt að nota sánuna sem áður var fyrir konur.
Heimild: Visir.is